„Vel gekk að koma sjúkraflutningamönnum til hins slasaða og eftir að hann hafði verið verkjastilltur var hann fluttur niður á veg þar sem sjúkrabifreið beið hans og var hann síðan fluttur til aðhlynningar á heilbrigðisstofnun. Ekki er talið að viðkomandi vélsleðamaður sé alvarlega slasaður,“ segir í Facebook-færslu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur þrívegis verið kölluð út í dag, sem telst óvenjumikið. Þyrlusveitin var kölluð út fyrr í dag vegna vélsleðaslyss á Jarlhettum, suður af Langjökli. Þá slasaðist einn alvarlega í fjórhjólaslysi við Hlöðuvallaveg undir Langjökli í morgun og var sá fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar.