Þjálfunin hefur staðið yfir í nokkrar vikur en Úkraínsku hermennirnir voru fluttir til Bretlands skömmu eftir að Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti að Bretar myndu, fyrstir bakhjarla Úkraínumanna, senda þeim vestræna skriðdreka.
Það var í byrjun febrúar en um er að fræða fjórtán skriðdreka. Bretar eru einnig að senda Úkraínumönnum tuttugu Bulldog bryndreka sem hannaðir eru til að flytja hermenn um hættuleg svæði og þrjátíu AS-90 stórskotaliðsvopn sem ganga undir eigin vélarafli.
Sjá einnig: Mikilvægar vikur í vændum í Úkraínu
Guardian hefur eftir yfirmanni þjálfunarinnar að Úkraínumennirnir hafi staðið sig betur en hann átti von á og efast hann ekki um að hermennirnir muni nota skriðdrekana vel við að verja Úkraínu.
Varnarmálaráðuneyti Bretlands birti í gær heimildarmynd um þjálfun úkraínsku hermannanna. Þar er farið yfir þjálfunina, í hverju hún felst og hvernig hermönnunum gekk. Hermennirnir þurftu ekki eingöngu að læra að nota skriðdrekana, að stýra þeim og að skjóta úr þeim, heldur þurftu þeir einnig að læra að viðhalda þeim og gera við þá, auk annars.
Áhugasamir geta séð myndina í spilaranum hér að neðan.
Þýskir skriðdrekar einnig í Úkraínu
Þýski herinn hefur einnig afhent Úkraínumönnum vestræna skriðdreka. Samkvæmt heimildum Spiegel hafa átján Leopard 2 skriðdrekar verið afhentir Úkraínumönnum en úkraínskir hermenn hafa einnig verið þjálfaðir í notkun þeirra í Þýskalandi og í Póllandi.
Pólverjar voru fyrstir til að senda skriðdreka af þessari gerð til Úkraínu en hergagnaflutningarnir hafa gengið mun hægar en ráðamenn í Úkraínu og bakhjarlar þeirra vonuðu.
Spiegel segir einnig að fjörutíu Marder bryndrekar hafi verið sendir til Úkraínu. Nokkuð langt er síðan yfirvöld í Þýskalandi og Bandaríkjunum tilkynntu að vestrænir bryndrekar yrðu sendir til Úkraínu en það var áður en ákveðið var að senda skriðdreka.
Þjóðverjar hafa verið að senda Úkraínumönnum Marder bryndreka en Bandaríkjamenn hafa sent Bradley bryndreka. Þar að auki hafa Frakkar sent tíu AMX-10 bryndreka sem gætu flokkast sem léttir skriðdrekar, þar sem þau eru ekki á beltum heldur hjólum og eru ekki varin þykkri brynvörn. Farartækin bera hins vegar fallbyssu eins og skriðdrekar.
Sjá einnig: Senda vestræna bryndreka til Úkraínu
Talið er að Úkraínumenn vilji reyna að nota þessi hergögn og þá hermenn sem hafa verið þjálfaðir í notkun þeirra til gagnárása í vor.
Úkraínumenn hafa fengið mikinn fjölda skriðdreka sem þróaðir voru á tímum Sovétríkjanna frá öðrum ríkjum Austur-Evrópu, og Rússum. Þeir hafa þó frá upphafi innrásar Rússa beðið um vestræna skriðdreka og önnur vestræn vopn. Á blaði eru þessir skriðdrekar betri en þeir rússnesku. Þar að auki eru aðrar ástæður fyrir því að Úkraínumenn hafa viljað og þurfa vestræna skriðdreka.
Það er lítið sem bendir til þess að Rússar muni láta af innrás þeirra á næstunni og er búist við því að átökin muni harðna þegar vorið nálgast. Þessar hersveitir þurfa skrið- og bryndreka, auk annarra vopna og Úkraínumenn geta ekki notast við gamla sovéska skriðdreka að eilífu.
Sjá einnig: Segja að vestrænir skriðdrekar brenni eins og aðrir
Varahlutir í þessa gömlu skriðdreka eru þar að auki ekki framleiddir í þeim ríkjum sem styðja við bakið á Úkraínu og á það sama við skotfæri. Úkraínumenn munu þurfa alfarið að snúa sér að vestrænum hergögnum.