Enski boltinn

Richarlison neitar því að hafa leitt uppreisn gegn Conte

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Conte með Richarlison.
Antonio Conte með Richarlison. Getty/Clive Rose

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Richarlison var mjög ósáttur með þær vangaveltur að hann hafi eitthvað haft með það að gera að Antonio Conte hætti sem knattspyrnustjóri Tottenham.

Hinn 53 ára gamli ítalski knattspyrnustjóri hætti hjá Tottenham á sunnudaginn var eftir sextán mánuði í starfi.

Richarlison kom til Tottenham frá Everton fyrir sextíu milljónir punda í júlí. Miklar væntingar voru gerðar til hans en hann hefur ekki staðið undir þeim.

Richarlison fór inn á samfélagsmiðla til að verja sig fyrir því sem hann kallar skelfilega lygi blaðamanns.

Argentínskur blaðamaður hjá TyC Sports sjónvarpsstöðinni hélt því fram að Richarlison og liðsfélagi hans Cristian Romero hafi sett félaginu stólinn fyrir dyrnar og heimtað að Conte yrði rekinn.

„Ég leiddi ekki uppreisn gegn Conte, þvert á móti það var algjörlega öfugt,“ skrifaði Richarlison á Twitter.

„Mér þykir það leitt að ég hafi ekki skilað eins miklu og búist var við af mér og að ég hafi ekki gert nóg þannig að hann héldi áfram hjá félaginu,“ skrifaði Richarlison.

„Þegar hann fór þá sendi ég honum skilaboð þar sem ég þakkaði honum fyrir allt og óskaði honum alls hins besta því það á hann skilið,“ skrifaði Richarlison.

Richarlison skrifaði undir fimm ára samning þegar hann kom en hann hefur aðeins skorað tvö mörk í 27 leikjum fyrir Tottenham og þau komu bæði í Meistaradeildinni.

Richarlison kom inn á sem varamaður þegar Tottenham datt úr úr Meistaradeildinni á móti AC Milan og gagnrýni Conte þá fyrir skort á spilatíma.

„Gagnrýni á mig fyrir mína frammistöðu er hluti af fótboltanum og ég skil það. Hins vegar að breiða út lygum um mig, það sætti ég mig ekki við. Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir Conte sem og fyrir öllum mínum þjálfurum,“ skrifaði Richarlison.

„Conte hjálpaði mér mikið þegar ég kom til Spurs og alltaf þegar ég var í vandræðum þá leystum við það með samtali og á fagmannlegan hátt. Það get ég staðfest,“ skrifaði Richarlison.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×