Öruggur sigur Arsenal sem endurheimti átta stiga forskot

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gabriel Jesus skoraði tvö mörk fyrir Arsenal í dag.
Gabriel Jesus skoraði tvö mörk fyrir Arsenal í dag. Julian Finney/Getty Images

Topplið Arsenal vann öruggan 4-1 sigur er liðið tók á móti Leeds í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Með sigrinum endurheimti liðið átta stiga forskot sitt á toppnum.

Gestirnir í Leeds voru sprækir í upphafi leiks, en tókst þó ekki að koma boltanum í netið. Heimamenn í Arsenal gengu á lagið og Gabriel Jesus fiskaði vítaspyrnu þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Jesus fór sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi og staðan var því 1-0 í hálfleik.

Ben White bætti svo öðru marki Arsenal við snemma í síðari hálfleik eftir fyrirgjöf frá Gabriel Martinelli áður en Jesus bætti öðru marki sínu og þriðja marki Arsenal við þegar enn voru 35 mínútur til leiksloka.

Rasmus Kristensen minnkaði muninn fyrir Leeds á 76. mínútu, en Granit Xhaka gerði endanlega út um leikinn með marki átta mínútum síðar og niðurstaðan varð því 4-1 sigur Arsenal.

Arsenal trónir því enn á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir sigur dagsins, nú með átta stiga forskot á Manchester City sem situr í öðru sæti. Leeds situr hins vegar í 17. sæti með 26 stig og aðeins markatalan heldur liðinu fyrir ofan fallsvæðið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira