Innlent

Barn á Suður­landi veiktist eftir að hafa inn­byrt hlaup­bangsa sem inni­hélt fíkni­efni

Atli Ísleifsson skrifar
Rannsókn málsins beinist meðal annars að því að kanna hvort um einangrað tilvik á svæðinu sé að ræða. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Rannsókn málsins beinist meðal annars að því að kanna hvort um einangrað tilvik á svæðinu sé að ræða. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. Getty

Lögreglan á Suðurlandi rannsakar nú mál þar sem barn hafði í gáleysi innbyrt sælgæti sem innihélt ólögleg fíkniefni. Upp komst um málið fyrr í mánuðinum.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að barnið hafi verið flutt á heilbrigðisstofnun og ekki sé annað vitað en að það muni ná sér að fullu.

„Svona mál koma því miður upp annað slagið hér á landi og eru þau litin mjög alvarlegum augum. Einhverra hluta vegna er efnum komið fyrir í hlaup „fígúrum“ dulbúið sem sælgæti sem oftast er markaðsett fyrir börn.

Rannsókn málsins beinist m.a. að því að kanna hvort um einangrað tilvik á svæðinu sé að ræða en það skal tekið fram að frekari upplýsingar um hana verða ekki gefnar á þessu stigi málsins.

Lögreglan hvetur fólk til að vera á varðbergi gagnvart slíkum ófögnuði og ef að fólk hefur upplýsingar þessu tengt að hafa samband við lögreglu. Vakin er athygli á því að slíkar upplýsingar eru meðhöndlaðar sem trúnaðarmál,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×