Skoðun

Að­för að safna­geiranum

Hilmar J. Malmquist. skrifar

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), birti grein í Vísi 24. mars s.l. þar sem hann svarar grein minni í Vísi 22. mars s.l.  um kvörtun SAF og Perlu Norðursins hf. (PN) til Samkeppniseftirlitsins vegna fyrirhugaðs sýningahalds Náttúrminjasafns Íslands í nýjum höfuðstöðvum safnsins á Seltjarnarnesi. Í ljósi nýjustu vendinga í skyldu máli, þ.e. ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs að leggja niður rannsóknastarfsemi og sýningahald Náttúrufræðistofu Kópavogs á grundvelli svipaðra „raka“ og SAF færir fyrir sínu máli gegn Náttúruminjasafninu er full ástæða til að svara framkvæmdastjóra SAF. Aðför SAF og PN er hvorki bundin við Náttúrumninjasafnið né eru SAF og PN ein um aðförina að safnageiranum.

Allur safnageirinn undir

Jóhannes kveinkar sér undan grein minni, kallar hana „stríðsyfirlýsingu“ og neitar því … „að í erindi SAF felist almenn aðför að safnastarfsemi.“og segir að málið snúist ekki um „minja og náttúrusöfn almennt“ heldur einvörðungu fyrirhugaða starfsemi Náttúruminjasafnsins á Seltjarnarnesi. Ástæðuna segir hann vera „að ýmislegt varðandi þessa tilteknu sýningu Náttúruminjasafns afmarkar málið við hana“. Útskýringar Jóhannesar eru þær að það „tengjast t.d. ekki allar minjasýningar á landinu sambærilegri sýningu í Perlunni beint“ (leturbr. mín) líkt og SAF telur að fyrirhugað sýningahald Náttúruminjasafnsins á Seltjarnarnesi muni gera, sem og að „það eru heldur ekki allar minjasýningar byggðar á fýsileikakönnun sem tiltekur sérstaklega að sýning þeirra verði „sambærileg“ við sýninguna í Perlunni.“.

Við þennan málflutning framkvæmdastjóra SAF er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi er Jóhannes í mótsögn við sjálfan sig um það hvort kvörtunin beinist aðeins að Náttúruminjasafninu eða safnastarfsemi í landinu almennt. Jóhannes segir sjálfur að SAF vilji líka „fá svar þar til bærra yfirvalda“ um „hugsanlega önnur sambærileg tilfelli“. Í öðru lagi stendur í kvörtuninni „Þá er skorað á Samkeppniseftirlitið að taka til sjálfstæðrar athugunar þau söfn og sýningar sem rekin eru af opinberum aðilum og fyrirtækjum í eigu ríkisins, til dæmis Orkusýningu Landsvirkjunar í Ljósafossstöð.“. Ennfremur er í niðurlagi kvörtunarinnar „skorað á Samkeppniseftirlitið að taka jafnframt til sjálfstæðrar skoðunar þau söfn og þær sýningar sem reknar eru af opinberum aðilum og eru í beinni samkeppni við einkaaðila.“ Dæmi nú hver fyrir sig um hverjir séu undir í kvörtun SAF og PN.

Málflutningur Jóhannesar þess efnis að kvörtunin afmarkist við Náttúruminjasafnið vegna þess að fyrirhuguð sýning safnsins á Seltjarnarnesi verði „sambærileg“ við sýningu PN í Perlunni, sem Jóhannes segir að sé tekið sérstaklega fram í svokallaðri fýsileikakönnun, sem á sér enga stoð og er hreinn uppspuni, er í senn furðuleg og hjákátleg og stenst ekki skoðun. Náttúruminjasafnið hefur um 500 m2 til umráða undir sýningaratriði í nýjum höfuðstöðvum sínum á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsi í Nesi, og meginþema sýningarinnar verður hafið, líffræðilegur fjölbreytileiki sjávar, vistfræði, myndun og mótun Atlantshafs og Íslands og náttúruvár á borð við loftslagsbreytingar og áhrif á vistkerfi sjávar. Hafinu er vissulega gerð skil á sýningu PN í Perlunni en sú umfjöllun er með allt öðrum hætti og margfalt minni að sniðum en verður í Náttúruhúsi í Nesi. Þegar upp er staðið verða sýningar PN og Náttúruminjasafnsins um hafið ósambærilegar að flestu ef ekki öllu leyti m.t.t. hugmyndafræði, efnistaka og framsetningar.

Kópavogsbær, KPMG og náttúran

Skýrsla KPMG sem liggur til grundvallar ákvörðun Kópavogsbæjar um að leggja niður Náttúrufræðistofu Kópavogs er sama marki brennd og málflutningur SAF og PN. Þar á bæ sjá menn ekki „fjárhagslegan ávæning“ af því að stofan, sem skv. safnalögum er skilgreind sem „viðurkennt safn“ og nýtur m.a. ríkisstyrkja, skuli sinna rannsóknum! Því er einnig haldið fram, án nokkurra raka, að rannsóknastarfsemin sé „í samkeppni við aðra“.

Skilningsskortur og fégræðgi

Ljóst má vera, þótt framkvæmdastjóri SAF reyni að halda öðru fram, að SAF og PN hófu með kvörtun sinni vegferð sem beinist að hinum opinbera safnageira almennt og Náttúruminjasafni Íslands sérstaklega. Aðför SAF rímar og við þau orð framkvæmdastjórans að það sé „afstaða samtakanna að rekstur opinberra aðila í samkeppni við einkaaðila sé óæskilegur.“ Það er leitt til þess að vita að SAF skuli skilgreina starfsemi höfuðsafns þjóðarinnar í náttúrufræðum og annarra opinberra safna og sýninga með jafn þröngsýnum og skilningsvana hætti. Hið sama gildir um bæjarstjórn Kópavogs og KPMG í tilviki Náttúrufræðistofu Kópavogs. Starfsemi þessara stofnana snýst um lögboðin, óhagnaðardrifin hlutverk á sviði rannsókna, skráningar, varðveislu og miðlunar til almennings og gesta landsins, sem einkaaðilar á borð PN lúta ekki. Ólíkt Náttúruminjasafninu gæti PN t.d. lokað sýningu sinni í Perlunni á morgun vafningalaust ef skyldi harðna svo á dalnum að arður til eigenda þætti of lítill.

Saga húsnæðismála Náttúruminjasafnsins er löng, ríflega 135 ára, og þyrnum stráð en nú hefur loks verið fundin lausn með flutningi í Náttúruhús í Nesi, glæsilega byggingu á einkar fögrum stað á Seltjarnarnesi. Með kvörtun SAF og PN hefur hins vegar dregið ský fyrir sólu, því fjárhagslegur aðskilnaður á rekstri sýningar frá öðrum rekstri Náttúruminjasafnsins myndi kippa fótunum undan grundvallarhlutverki safnsins, sem er að miðla fróðleik, upplýsingum og þekkingu um náttúru Íslands til almennings og gesta landsins með sýningahaldi.

Að lokum

Skyldi svo fara eins og SAF stefnir að með kvörtun sinni til Samkeppniseftirlitsins gagnvart Náttúruminjasafninu og fleiri söfnum, liggur beinast við að leggja höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum niður, líkt og Kópavogsbær hefur gert með Náttúrufræðistofu Kópavogs. Það væri til vitnis um mikla skammsýni, skilningsskort, fégræðgi og harðlínustefnu í anda nýfrjálshyggju gagnvart opinberum umsvifum, náttúrufræðslu og náttúrvernd. Ég trúi ekki öðru en að Náttúruminjasafn Íslands eigi sér bjartari framtíð meðal þjóðarinnar en slík örlög.

Höfundur er forstöðumaður Náttúruminjasafn Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×