Nebraska skólinn ákvað nefnilega að láta leik með kvennaliði skólans fara fram á Memorial fótboltaleikvanginum í Lincoln borg í Nebraska fylki. Eins og hjá mörgum skólum í Bandaríkjunum þá vellirnir fyrir amerískan fótbolta gríðarlega stórir og þessi í Lincoln tekur meira en áttatíu þúsund manns.
Blak er auðvitað vanalega spilað innanhúss en leikurinn fer fram um sumar og vonandi verður ekki rigning.
Leikurinn fer fram í lok ágúst á þessu ári en miðarnir voru settir í sölu í þessari viku. Eftir aðeins tvo daga var ljóst að það yrðu uppselt á leikinn en alls seldust 82.900 miðar. Bæði voru það ársmiðar sem og miðar sem fóru seinna í almenna sölu.
Í leiknum þá mætir Nebraska skólaliði Omaha en leikurinn fer fram klukkan sjö á miðvikudagskvöldinu 30. ágúst. Áhorfendur verða jafnvel enn fleiri því það gætu verið settar færanlegar áhorfendastúkur í kringum blakvöllinn sem er náttúrulega mun minni en fótboltavöllurinn.
Miðað við áhugann á leiknum þá má búast við að slíkar stúkur verði einnig nýttar og áhorfendatala fari þá mögulega upp í 85 þúsund manns.
Metið fyrir háskólablakleik á vegum NCAA er 18.755 manns á leik Nebraska og Wisconsin í desember 2021. Mest hafa komið 90.185 manns á kvennaleik í Bandaríkjunum en það var á úrslitaleik HM í fótbolta 1999 á milli Bandaríkjanna og Kína.
Það var heimsmet þar til að Barcelona spilaði á móti Real Madrid fyrir framan 91.553 manns á Nývangi í mars 2022.