Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins kemur fram að söngvarinn hafi áður spurt fylgjendur sína á samfélagsmiðlinum Twitter að því hvort hann ætti að skipta um nafn. „ABEL áður þekktur sem The Weeknd?“ skrifaði tónlistarmaðurinn svo athygli vakti.
Þá segir hann í samtali við W Magazine að hann sé að ganga í gegnum ákveðið breytingarskeið. „Ég er að verða nær því að vera reiðubúinn til þess að ljúka þessum The Weeknd kafla,“ segir tónlistarmaðurinn.
Hann hefur áður lýst því að uppruna nafnsins megi rekja til þess þegar hann hafi hætt í skóla. Hann hafi hætt um eina helgi og aldrei mætt aftur.
„Ég er búinn að segja allt sem ég hef að segja sem The Weeknd,“ segir tónlistarmaðurinn við tímaritið en undir listamannsnafninu hefur hann unnið til fjögurra Grammy verðlauna auk þess sem heimsmetabók Guinness lýsti því yfir í mars síðastliðnum að hann væri vinsælasti tónlistarmaður veraldar, sökum fjölda hlustana á Spotify.
Í mars 2023 hlustuðu 111,4 milljónir hlustenda á tónlistarmanninn á Spotify streymisveitunni og var hann sá fyrsti til að rjúfa hundrað milljóna hlustenda múrinn.