Fótbolti

Kristall í byrjunarliðinu er Rosenborg komst aftur á sigurbraut

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristall Máni fagnar marki með íslenska landsliðinu.
Kristall Máni fagnar marki með íslenska landsliðinu. Vísir/Hulda Margrét

Eftir sex leiki í röð án sigurs komst Rosenborg loks aftur á sigurbraut er liðið vann 1-0 sigur gegn Haugesund í norsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Kristall Máni Ingason var í byrjunarliði Rosenborg, en gestirnir í Haugesund þurftu að spila seinasta klukkutíman manni færri eftir að Magnus Christensen nældi sér í tvö gul spjöld með stuttu millibili og þar með rautt.

Heimamenn nýttu sér liðsmuninn og Morten Bjorlo skoraði eina mark leiksins fyrir liðið á 57. mínútu áður en Kristall var tekinn af velli tveimur mínútum síðar.

Þetta var aðeins annar sigur Rosenborg á tímabilinu og liðið situr nú í 11. sæti deildarinnar með níu stig eftir átta leiki, þremur stigum meira en Haugesund sem situr í 14. sæti.

Þá stóð Patrik Gunnarsson vaktina í marki Viking er liðið vann 3-2 sigur gegn Odd, en Birkir Bjarnason kom inn af varamannabekknum í hálfleik. Á sama tíma máttu Brynjar Bjarnason og félagar í Ham-Kam þola 3-0 tap gegn Valerenga, en Ari Leifsson og félagar í Stromsgodset unnu góðan 1-0 sigur gegn Sandefjord.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×