Þetta kemur fram í svörum heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, um langvinn áhrif Covid-19.
Það ber að athuga að ekki er endilega um að ræða 3.017 einstaklinga, þar sem sami einstaklingurinn getur hafa leitað aðstoðar á fleiri en einu ári.
Auk þeirra sem leituðu á heilsugæslu vegna langvarandi einkenna Covid-19 áttu 198 einstalingar komur á göngudeildir heilbrigðisstofnana á árunum 2018 til 2022.
„Töluverð óvissa er um fjölda þeirra sem glíma við þessi langvinnu einkenni. Almennt er talið að um 10–30% þeirra sem greinast með COVID-19 glími við einhverjar langvinnar afleiðingar eftir sýkinguna. Langvinn áhrif COVID-19 eru skilgreind sem einkenni sem hafa varað lengur en þrjá mánuði og komu fram við sýkinguna eða eftir sýkinguna og ekki er hægt að útskýra með öðrum hætti,“ segir í svörum ráðherra.
Þar segir einnig að þann 20. mars 2023 hafi alls borist 255 beiðnir til Reykjalundar þar sem langvinn einkenni Covid-19 voru aðalástæða meðferðarbeiðni. Þar af höfðu 144 lokið meðferð, 20 voru í meðferð og 26 á leið í meðferð.
Þá höfðu um hundrað einstaklingar leitað til Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði.
„Þar sem einkenni þeirra sem glíma við langvinn áhrif COVID-19 eru fjölbreytileg er ekki hægt að segja til um hvaða meðferð eða endurhæfing hentar best fyrir hópinn í heild. Til viðbótar hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gefið út ráðleggingar varðandi þennan hóp þar sem mælt er með að ákvarða og skipuleggja endurhæfingu út frá einkennum hvers og eins, frekar en þeirri staðreynd að um langvinn áhrif COVID-19 sé að ræða,“ segir í svörum ráðherra.