Handbolti

Liðs­fé­lagarnir með söngva og konfetti þegar Óðinn fékk Evrópu­deildar­boltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson með verðlaun sín sem markahæsti leikmaður Evrópudeildarinnar i vetur.
Óðinn Þór Ríkharðsson með verðlaun sín sem markahæsti leikmaður Evrópudeildarinnar i vetur. Kadetten Schaffhausen

Ísland á markahæsta leikmanninn í Evrópudeildinni á þessu tímabili en Óðinn Þór Ríkharðsson fór á kostum í vetur með svissneska félaginu Kadetten Schaffhausen.

Þótt að Kadetten hafi ekki komist lengra en átta liða úrslitin í Evrópudeildinni þá náði enginn leikmaður í deildinni að skora fleiri mörk í keppninni en íslenski hornamaðurinn.

Óðinn Þór skoraði alls 110 mörk í 13 leikjum eða 8,5 mörk að meðaltali í leik. Það sem meira er að hann nýtti 81,5 prósent skota sinna sem er frábær nýting.

Óðinn fékk verðlaunin afhent á liðsfundi og liðsfélagar hans hjá Kadetten voru mjög ánægðir með okkar mann. Þeir bæði sungu og skutu upp konfetti til heiðurs Íslendingnum. Það má sjá þessa skemmtilegu stund hér fyrir neðan.

„Þessi markakóngstitill er frábær fyrir bæði Óðinn og okkar félag,“ sagði framkvæmdastjórinn David Graubner og velti síðan upp spurningunni. „Hvað hefði hann skorað mörg mörk ef hann hefði spilað alla leikinn,“ spurði Graubner í léttum tón en Óðinn missti af upphafi tímabilsins.

Óðinn skoraði sex mörkum meira en næsti maður sem var Portúgalinn Martim Costa hjá Sporting CP með 104 mörk í þremur fleiri leikjum en Óðinn spilaði. Þriðji var síðan Bence Nagy hjá FTC með 99 mörk í 16 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×