Fótbolti

Segir að Messi ákveði sig í næstu viku

Smári Jökull Jónsson skrifar
Xavi segir að Lionel Messi muni ákveða framtíð sína í næstu viku.
Xavi segir að Lionel Messi muni ákveða framtíð sína í næstu viku. Vísir/Getty

Xavi Hernandez, knattspyrnustjóri Barcelona, muni ákveða framtíð sína í næstu viku. Messi hefur verið orðaður við endurkomu til Katalóníu.

Framtíð Lionel Messi er óljós en á hreinu er að hann mun ekki leika áfram með franska liðinu PSG. Orðrómar hafa verið í gangi til lengri tíma um endurkomu til Barcelona þar sem hann lék á árunum 2004-2021. Þá hefur verið greint frá áhuga Al-Hilal í Sádi Arabíu en Messi er sendiherra ferðamála fyrir Visit Saudi-Arabia.

Xavi Hernandez, knattspyrnustjóri Barcelona og samherji Messi til margra ára, greindi frá því í viðtali við spænska fjölmiðilinn Mundo Deportivo, að Messi myndi taka ákvörðun um framtíð sína í næstu viku.

„Hann sagði mér að hann vill ákveða sig í næstu viku. Nú þurfum við að leyfa honum að vera í friði,“ sagði Xavi í viðtalinu.

„Nú eru tvö hundruð mismunandi sögur í gangi. Mér finnst hann hafa getuna til að halda áfram á hæsta stigi. Ef hann kemur til Barca, sem allir Katalónar óska sér, þá standa dyrnar opnar.“

Xavi og Messi spiluðu saman hjá Barcelona í tíu ár og Xavi er ekki í neinum vafa um að Messi passar enn inn í hugmyndafræði Katalóníufélagsins.

„Ég veit að hann mun hjálpa okkur ef hann ákveður að koma. Hann getur aðlagað sig að mörgum stöðum. Hann getur spilað á kantinum, sem miðjumaður eða sem fölsk nía líkt og hann hefur gert allt sitt líf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×