Fótbolti

Ísak heim og glímir enn við höfuð­meiðsli

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson hefur áður glímt við höfuðmeiðsli.
Ísak Snær Þorvaldsson hefur áður glímt við höfuðmeiðsli. Rosenborg

Knattspyrnumaðurinn Ísak Snær Þorvaldsson glímir á ný við höfuðmeiðsli og missir þar af leiðandi af næstu leikjum norska liðsins Rosenborg.

Fregnir bárust af því í ágúst í fyrra að Ísak hefði fengið heilahristing tvisvar á þremur vikum, þegar hann var leikmaður Breiðabliks. Var það haft eftir honum sjálfum. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Blika, sagði hins vegar í samtali við Fótbolta.net í kjölfarið að Ísak hefði reyndar ekki fengið heilahristing heldur slæmt höfuðhögg.

Nú valda höfuðmeiðsli Ísaki aftur vandræðum en norskir miðlar greina frá þessu og segja Ísak hafa haldið heim til Íslands.

Hann þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla í leik gegn Bodö/Glimt 13. maí og hefur ekki spilað síðan þá.

Kjetil Rekdal, þjálfari Rosenborg, sagði við Adressavisen 22. maí að erfitt væri að segja til um stöðuna á Ísaki vegna höfuðmeiðslanna. Aðeins væri ljóst að hann myndi missa af leik við Brann sem fram fór 29. maí, og síðan hefur Ísak einnig misst af tapleik í bikarkeppninni og 4-0 sigri gegn HamKam á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×