Verið var að fljúga flugvélinni frá Tennessee til Long Island í New York, en þegar þangað var komið virðist sem sjálfstýring flugvélarinnar hafi snúið henni við. Hún flaug svo áfram þar til hún brotlenti á fjalli í Virginíu á sunnudaginn.
Flugvélin var þota af gerðinni Cessna 560. Um borð var flugmaður, kona og tveggja ára barn auk barnfóstru.
Flugmaðurinn var 69 ára gamall og hét Jeff Hefnar. Konan var dóttir eiganda flugvélarinnar en hún hét Adina Azarian og var 49 ára gömul. Tvegga ára dóttir hennar Aria dó einnig í slysinu auk Evadnie Smith, sem var 56 ára gömul barnfóstra.
Orrustuþotur voru sendar til móts við flugvélina, þar sem hún flaug beint yfir Washington DC, höfuðborg Bandaríkjanna, á bakaleiðinni. Mörgum íbúum Washington DC var mjög brugðið þegar orrustuþotunum var flogið yfir höfuðborgina en þeim var flogið yfir hljóðhraða, með tilheyrandi látum, og töldu margir að um gríðarstóra sprengingu hefði verið að ræða.
Sjá einnig: Orrustuþotum flogið til móts við stjórnlausa flugvél yfir Washington DC
Sérfræðingur sem AP fréttaveitan ræddi við segir líklegt að flugmaðurinn hafi misst meðvitund vegna súrefnisskorts þegar þotunni var flogið í þriggja kílómetra hæð. Í þeirri hæð þarf að jafna þrýsting um borð í flugvélum og líklegt er að sá búnaður hafi verið bilaður eða rangt stilltur.
Hafi svo verið, myndi flugmaðurinn einungis hafa nokkrar mínútur, eða jafnvel ekki einu sinni mínútu, til að bregðast við, samkvæmt Alan Diehl. fyrrverandi flughermaður og starfsmaður hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa í Bandaríkjunum. Hann kom einnig að því að hanna umrædda flugvél.
Fréttaveitan segir einnig að flughermenn sem sendir voru til móts við flugvélina hafi séð flugmanninn á grúfu í flugstjórasætinu.