Snorri var í 118. sæti eftir 17,5 kílómetra hlaup en vann sig svo smám saman framar í röðina. Hann var kominn í 54. sæti eftir 53 kílómetra og endaði að lokum í 33. sæti.
Snorri hljóp á samtals 11 klukkustundum, átta mínútum og 17 sekúndum. Sigurvegari varð Frakkinn Benjamin Roubiol en hann hljóp á 9:52,59 klukkutímum.
Þegar þetta er skrifað er Snorri eini af Íslendingunum sem kominn er í mark í hlaupinu. Þorbergur Ingi Jónsson er sem stendur í 88. sæti í karlakeppninni en Halldóra Huld Ingvarsdóttir í 44. sæti af konunum og Rannveig Oddsdóttir í 57. sæti.
Í hlaupinu í dag, sem eins og fyrr segir var 87 kílómetrar, var samanlögð hækkun um 6.500 metrar. Í gær kepptu átta Íslendingar í styttri vegalengdinni á HM, eða 45 km hlaupi með 3.100 metra hækkun.
Andrea Kolbeinsdóttir náði bestum árangri í gær eða 35. sæti en stefndi mun hærra og var mjög ósátt við sjálfa sig varðandi útfærslu hlaupsins.