Húsnæði leikhússins var nýlega selt til þess að rýma fyrir stækkun hótels í næsta húsi. Aðstandendur leikhússins fréttu það eftir að salan var staðfest og segja það miður að hafa ekki fengið tækifæri til að bjóða í húsið.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag nauðsynlegt finna Gaflaraleikhúsinu nýtt húsnæði en að það hafi ekki legið á lausu. Hún segir bæjaryfirvöld vinna að því í sameiningu við leikhúsið að finna framtíðarlausn fyrir leikhúsið.
Sjá einnig: Mikilvægt að finna leikhúsinu nýtt húsnæði
Björk segir að hún finni fyrir miklum velvilja en að hann sé meira í orði en á borði.
Í dag var leikhúsið tæmt og „ævistarfinu fargað“.
„Svo bara helltist þetta yfir mig í dag. Eins og þið finnið er ég svolítið meyr,“segir Björk sem minnist þess að leikhúsið sjálft hafi opnast 1994 en hún ásamt öðrum tók við því 2011.
„Við erum búin að byggja upp frábært starf. Hér hafa verið börn leikandi á sumrin, unglingar leikandi á veturna, hér hafa menntaskólar haft aðstöðu og hér höfum við sett upp frábærar sýningar.“
Búnaði fargað og gefinn
Mikið af búnaði og leikmunum leikhússins var hent í gáma fyrir utan leikhúsið í dag og þar til í gær sá Björk fram á að farga fjögurra milljóna króna áhorfendapöllum leikhússins, en fann þeim svo nýtt heimili í leikhúsinu á Hvammstanga. Aðeins lítill hluti dýrari búnaðar leikhússins fer nú í geymslu þar til þau vita næstu skref.
„Með þá von í brjósti að leikhús í Hafnarfirði sé ekki alveg að loka. Við erum komin með tillögu. Það er vöruhús sem væri gaman að breyta í menningarhús. Það væri hægt að hafa tvo sali. Það er gott að fá velvilja en nú þarf að hoppa en ekki hika. Þetta væri svo svakalega vona að missa þetta.“
![](https://www.visir.is/i/497C94D0CA2722EDD830E5F93F5F78E9F74985A1FAA574DA5A92B6663D8C6F5A_713x0.jpg)
Björk biðlar til bæði sviðslistasenunnar og annarra að bregðast við þessari alvarlegu stöðu. Hún gagnrýnir að hvert húsið af fætur öðrum sem hýsi sviðslistir hafi horfið af sjónarsviðinu og spyr hvar unga leikhúsfólkið okkar eigi að vera.
„Hér þurfa að rísa hótel og eldfjallasafn eða hvað sem það er sem Austurbæjarbíó varð. Ég græt þessi hús. Austurbær, Gamla bíó, Iðnó. Hvar eiga krakkarnir okkar að stunda list. Hvar á framtíðin að vera. Bara plís, wake up“.
Björk bendir á að þetta sé ekki aðeins slæmt fyrir leikhúsið og sviðslistir því afleiddar tekjur séu einnig verulegar.
„Hér á high season erum við að taka þúsund inn á viku og það þurfa allir að fara út að borða. Veitingahúsin í bænum eiga eftir að finna fyrir þessu og allur miðbærinn.“
Viðtal við Björk úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að neðan.