Fótbolti

Modric tekur í það minnsta eitt ár í viðbót með Madrídingum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Luka Modric verður áfram í herbúðum Real Madrid.
Luka Modric verður áfram í herbúðum Real Madrid. Florencia Tan Jun/Getty Images

Króatíski knattspyrnumaðurinn Luka Modric hefur skrifað undir eins árs framlengingu á samningi sínum við spænska stórveldið Real Madrid.

Modric, sem verður 38 ára síðar á árinu, hefur verið lykilmaður fyrir Madrídinga frá því hann gekk til liðs við félagið frá Tottenham árið 2012. Með liðinu hefur króatíski miðjumaðurinn unni 23 titla, þar af hefur hann unnið Meistaradeild Evrópu fimm sinnum, spænsku deildina þrisvar og spænska konungsbikarinn tvisvar. Þá var hann valinn besti leikmaður heims árið 2018.

Madrídingar greina frá tíðindunum á samfélagsmiðlum sínum og þar kemur fram að Modric muni taka slaginn með liðinu í allavega eitt tímabil í viðbót.

Þrátt fyrir að mikil endurnýjun hafi átt sér stað á miðsvæði Real Madrid undanfarin ár hefur gamla bandið þó ekki alveg sagt skilið við félagið. Luka Modric verður áfram hjá félaginu líkt og Toni Kroos, en þeir fá þó samkeppni frá Aurélien Tchouameni, Eduardo Camavinga og Federico Valverde, sem og nýja manninum Jude Bellingham.

Talið er að Modric hafi verið einn af mörgum sem fengu gylliboð frá félagi í Sádi-Arabíu. Nú er hins vegar ljóst að ef slíkt boð var lagt fram þá hefur sá króatíski hafnað því og verður áfram í herbúðum Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×