Fótbolti

Tvö íslensk mörk í norska bikarnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Brynjar Ingi skoraði fyrir Ham Kam í dag.
Brynjar Ingi skoraði fyrir Ham Kam í dag. Vísir/Getty

Brynjar Ingi Bjarnason og Jónatan Ingi Jónsson voru báðir á skotskónum þegar lið þeirra léku í 16-liða úrslitum norska bikarsins í knattspyrnu í dag.

Brynjar Ingi skoraði annað mark Ham Kam sem vann góðan sigur á Gjövik-Lyn á útivelli. Mark Brynjars Inga kom á 44. mínútu en Ham Kam vann að lokum 5-0 sigur og tryggði sér þar með sæti í 8-liða úrslitum.

Jónatan Ingi Jónsson skoraði fyrir Sogndal sem tapaði 4-3 fyrir Sarpsborg og féll þar með úr leik. Jónatan Ingi jafnaði metin í 1-1 í fyrri hálfleik og lið Sogndal komst síðan í 2-1 forystu fyrir hlé og 3-1 í síðari hálfleik. Sarpsborg skoraði hins vegar þrjú mörk á síðustu sautján mínútunum og tryggði sér 4-3 sigur. Svekkjandi niðurstaða fyrir Jónatan Inga og félaga sem leika í næst efstu deild í Noregi.

Ari Leifsson var í byrjunarliði Strömgodset sem tapaði 3-0 fyrir Molde. Molde var komið í 3-0 strax eftir tuttugu og sex mínútur í leiknum og sigur þeirra aldrei í hættu.

Birkir Bjarnason var í byrjunarliði Viking sem mætti Raufoss á útivelli. Birkir var tekinn af velli í hálfleik í stöðunni 1-1 en markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson situr á varamannabekk Viking. Eftir venjulegan leiktíma var staðan 3-3 og 4-4 að lokinni framlengingu.

Því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni og þar var það Raufoss sem hafði betur. Liðið skoraði úr fjórum vítaspyrnum en Viking aðeins úr einni. Raufoss er því komið í 8-liða úrslit en liðið leikur í næst efstu deild í Noregi.

Fréttin hefur verið uppfærð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×