Körfubolti

Fær næstum því þrisvar sinnum meira borgað en Jordan fékk allan ferilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LaMelo Ball verður áfram hjá Charlotte Hornets eftir að hafa gengið frá nýjum risasamningi.
LaMelo Ball verður áfram hjá Charlotte Hornets eftir að hafa gengið frá nýjum risasamningi. Getty/ Jacob Kupferman

LaMelo Ball gekk um helgina frá nýjum risasamningi við Charlotte Hornets í NBA deildinni í körfubolta og stærð samningsins hefur fengið menn til að bera hann saman við súperstjörnu fyrri tíma.

Ball er að gera nýjan fimm ára samning og hann mun gefa honum 260 milljónir Bandaríkjadala eða 35,6 milljarðar íslenskra króna.

Michael Jordan er að hætta sem eigandi Charlotte Hornets en hann er að margra mati besti leikmaðurinn sem hefur spilað í NBA deildinni.

Jordan fékk hins vegar aðeins 94 milljónir Bandaríkjadala í laun allan sinn feril í NBA deildinni.

Þessi nýi fimm ára samningur Ball skilar honum því næstum því þrefalt meiru en Jordan fékk allan sinn feril.

Það þarf þó enginn að vorkenna Jordan sem græddi miklu meira á auglýsinga- og skósamningnum sínum utan vallar en á sjálfum launum sínum í NBA.

Jordan er enn að raka inn peningum meira en tveimur áratugum eftir að hann hætti endanlega að spila.

LaMelo Ball hefur skorað 19,4 stig, tekið 6,4 fráköst og gefið 7,3 stoðsendingar í leik undanfarin þrjú tímabil. Hann spilaði þó bara 36 leiki á síðasta tímabil þar sem hann ökklabrotnaði.

Fram að meiðslunum þá var Ball með 23,2 stig, 8,4 stoðsendingar og 6,4 fráköst að meðaltali í leik sem eru frábærar tölur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×