Ísland tekur á móti Finnlandi á Laugardalsvelli 14. júlí klukkan 18 og heldur svo til Austurríkis þar sem liðið spilar við heimakonur 18. júlí. Ásta sleppir þessum leikjum til að vinna úr hnémeiðslum sem hafa plagað hana, að því er Ásmundur Arnarsson þjálfari Blika segir við Fótbolta.net.
Anna Björk hefur ekki átt sæti í íslenska landsliðinu í rúm tvö ár, eða frá því í mars 2021 í fyrsta verkefni landsliðsins undir stjórn Þorsteins Halldórssonar.
Breyting hefur verið gerð á hópi A landsliðs kvenna sem spilar vináttuleiki gegn Finnlandi og Austurríki í júlí!
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) July 5, 2023
Inn: Anna Björk Kristjánsdóttir
Út: Ásta Eir Árnadóttir#dottir
„Auðvitað hefur það verið svekkjandi. Maður vill alltaf vera í landsliðinu, það er mikið stolt sem fylgir því," sagði Anna Björk við Fótbolta.net í janúar síðastliðnum, þegar hún ræddi um landsliðið. Hún sagði þá ljóst að mikil samkeppni væri varðandi stöðu miðvarða í hópnum:
„Ég ræð ekki hvernig hópurinn er þannig að ég geri bara mitt og Steini gerir sitt. Það er mikil samkeppni í minni stöðu og þetta er hausverkur Steina. Maður verður að gera sitt besta þannig að þetta verði að enn meiri hausverk. Ef maður er valin þá er það alltaf mikil viðurkenning. Maður heldur áfram með sitt.“
Anna Björk, sem er 33 ára, var á þessum tíma leikmaður Inter á Ítalíu en hún gekk í raðir Vals á dögunum eftir tveggja ára dvöl á Ítalíu. Áður lék hún einnig í Frakklandi, Hollandi og Svíþjóð, og með Selfossi hér á landi sumarið 2020, en hún hóf meistaraflokksferilinn með Stjörnunni.