Hart hefur verið sótt að matvælaráðherra vegna ákvörðunar um stöðvun hvalveiða tímabundið. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hefur meðal annars sagt að ráðherra hafi ekki fært rök fyrir ýmsu sem grundvallaði ákvörðunina.
Þá hafi hún virt að vettugi ráðleggingar sérfræðinga og engin svör hafi fengist um hvort hagsmunamat gagnvart atvinnuréttindum leyfishafa hafi verið framkvæmt. Matvælaráðherra hafnar gagnrýninni og segir öll gögn máls liggja fyrir.
„SFS er augljóslega að túlka málið sér í hag og ég er ósammála þeirri túlkun enda eru allar mínar ráðstafanir í samræmi við ráðgjöf ráðuneytisins,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. Samtökin eru ekki þau einu sem hafa gagnrýnt matvælaráðherra.
Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason, sagði á miðvikudaginn ákvörðun ráðherra ögrun og aðför að ríkisstjórninni. Hún hefði með henni veikt og grafið undan möguleikum hennar að leysa erfið verkefni á komandi mánuðum. Svandís segir gagnrýnina fyrsta og fremst til heimabrúks.
„Við vorum á ágætum ríkisstjórnarfundi hér áðan þar sem ég varð ekki vör við þessi vandamál.“ Svandís segir ekki standa til að afturkalla ákvörðunina. „Þessi ákvörðun og þessi ráðstöfun er óvenjulega vel undirbyggð og ég hef sinnt minni rannsóknarskyldu á öllum stigum. Þannig ég hafna þessari gagnrýni.“