Morgunblaðið greinir frá og hefur eftir Írisi Guðnadóttur, einum af landeigendum, að markmiðið með því að leggja á gjald sé að standa straum af kostnaði. Auk þess verði stuðlað að innviðauppbyggingu og rekstri svæðisins með gjaldinu.
„Það er gífurlegur straumur ferðafólks í Reynisfjöru og bílaplanið er sprungið,“ segir Íris. „Bílar hafa verið að leggja upp með veginum og þá skapast slysahætta og mjög mikil óreiða á bílastæðinu. Því erum við í rauninni aðallega að reyna að koma skipulagi á bílastæðamál og auka umferðaröryggi,“ hefur blaðið eftir Írisi.
Hún segir að flestir séu hissa á því að landeigendur hafi ekki löngu verið búnir að setja upp gjaldskyldu við bílastæðið. Tekjur af því verði nýttir í viðhald við fjöruna sem Íris segir mikið og felist til að mynda í því að hirða upp rusl og bjóða upp á salernisaðstöðu.