„Erum ekkert smá þakklát að fá að hitta og elda fyrir þessa glæsilegu menn!“ segir í færslu sem Þrastalundur birtir á Facebook-síðu sinni í dag.
Fram kemur í færslunni að þetta sé annað árið í röð sem þeir Ramsay og Beesley mæta í Þrastalund að borða. Það sé heiður að fá að hitta þá aftur. Einnig segir í færslunni að starfsfólk Þrastalundar hafi fengið „aldeilis góð hrós“ frá félögunum. „Ekki amalegt að fá að elda fyrir Gordon Ramsay!“
Að lokum segir að starfsfólkið á Þrastalundi sé þakklátt fyrir að fá að vera hluti af heimsókn Ramsay og Beesley. „Takk fyrir að vera alltaf svona almennilegir! Þvílík ánægja að geta eldað fyrir ykkur og verið í kringum ykkur, þetta var svo gaman! Þið eruð alltaf velkomnir aftur.“

Hefur gert sér ferð á fleiri staði
Þetta er alls ekki fyrsti veitingastaðurinn sem Ramsay mætir á í þessari ferð sinni til Íslands. Hann var til að mynda óvæntur gestur á veitingastaðnum OTO á Hverfisgötu í vikunni. Eigandi staðarins vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar hann sá að Ramsay væri með bókað borð á staðnum.
Þá sagði eigandinn að Ramsay hafi komið inn í eldhús á staðnum og látið eins og heima hjá sér. Hann hafi verið ánægður með matinn.
Fyrr í vikunni sást svo til Ramsay á kokteilbarnum Tipsý í miðborg Reykjavíkur.