Þrátt fyrir að vinna aðeins 1-0 sigur voru yfirburðir Al-Nassr töluverðir í leiknum. Liðið var mun meira með boltann og skapaði sér fjölmörg færi. Ronaldo og Sadio Mané náðu vel saman í framlínunni en það var Mané sem fiskaði vítið sem Ronaldo skoraði úr á 75. mínútu.
Ronaldo kom boltanum einnig í netið í fyrri hálfleik en það mark var dæmt af eftir skoðun í VAR-sjánni. Al-Nassir liðar vildu svo aftur fá víti undir lok leiks þegar aftur var brotið á Mané innan teigs en VAR var ekki á þeirra bandi í dag.
Það kom þó ekki að sök, öruggur sigur Al-Nassr niðurstaðan og liðið á leið í úrslit, þar sem það mætir annað hvort Al-Hilal eða Al-Shabab, en bæði þessi lið eru frá Sádí-Arabíu.