Fótbolti

Lavia mættur til Chelsea og LFC miðjan er klár

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Romeo Lavia er mættur til Lundúna.
Romeo Lavia er mættur til Lundúna. Darren Walsh/Chelsea FC via Getty Images

Belgíski miðjumaðurinn Romeo Lavia hefur verið formlega kynntur til leiks sem nýr leikmaður Chelsea.

Lavia kemur til Chelsea frá Southampton fyrir 53 milljónir punda, en kaupverðið gæti þó enn hækkað upp í 58 milljónir punda. Það samsvarar um 9,8 milljörðum íslenskra króna.

Hann er áttundi leikmaðurinn sem Lundúnaliðið fær til liðs við sig í sumarglugganum og annar leikmaðurinn sem félagið barðist við Liverpool um og hafði betur. Chelsea festi kaup á ekvadorska miðjumanninum Moises Caicedo á dögunum, en Liverpool hafði boðið vel í bæði Lavia og Caicedo áður en þeir ákváðu frekar að fara til Chelsea.

Í janúar á þessu ári keypti Chelsea svo argentínska miðjumanninn Enzo Fernandez, sem Liverpool hafði einnig haft áhuga á, og því getur Chelsea stillt upp í svokallaða LFC miðju með þeim Lavia, Fernandez og Caicedo.

Romeo Lavia er 19 ára miðjumaður sem fór í gegnum unglingastarf Anderlecht áður en hann gekk í raðir Manchester City árið 2020. Hann lék þó aldrei leik fyrir City og færði sig yfir til Southampton fyrir síðasta tímabil þar sem hann blómstraði.

Hann lék 29 leiki í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili þar sem hann skoraði eitt mark og á að auki að baki einn leik fyrir belgíska landsliðið.


Tengdar fréttir

Chelsea gæti stillt upp LFC miðju

Nettröllum leiðist ekki að stríða Liverpool stuðningsmönnum á skelfilegri frammistöðu Liverpool á félagsskiptamarkaðnum síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×