Alþýðusamband Íslands ákvað fyrir helgi hætta viðskiptum við Íslandsbanka, líkt og VR. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og fyrsti varaforseti ASÍ segir viðbrögð Íslandsbanka vegna brota hans við sölu á hlut ríkisins í bankanum hafa valdið miklum vonbrigðum.
„Það eru enn þá starfsmenn við bankann sem voru þátttakendur í þessum leik og hluti af stjórninni líka. Það gefur auga leið að þá er einfaldlega ekki nógu langt gengið í að ávinna sér traust á ný. Það eru þessi sterku skilaboð sem við og ASÍ erum að senda út. Við erum að setja strik í sandinn. Við höfnum þessari háttsemi stjórnenda í viðskiptalífinu,“ segir Ragnar.
Ekki sé búið að ákveða hver verði viðskiptabanki VR verður. Þá muni ákvörðun ASÍ um að hætta viðskiptum við bankann standa.
„Þetta var ákvörðun sem var tekin á miðstjórnarfundi ASÍ og henni verður ekkert haggað,“ segir Ingólfur.
Ekki haft samband við Lífeyrissjóð verzlunarmanna
Lífeyrissjóður verzlunarmanna á tæplega sjö prósent í Íslandsbanka og er fjórði stærsti hluthafi bankans.
Ragnar Þór Ingólfsson sagði í júní að færi svo að VR hætti viðskiptum við Íslandsbanka yrði þeim skilaboðum beint til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að gera slíkt hið sama. Hann segist hins vegar ekki hafa gert það nú.
„Ég hef ekki verið í neinum samskiptum við lífeyrissjóðinn. Það er bara stjórn sjóðsins að taka ákvörðun um það hvort að hún telji að það sé þörf á að beina viðskiptum sínum eitthvert annað. En ef ég væri lífeyrissjóður þá myndi ég hugsa mig vel um hvort að bankinn sé raunverulega að gæta ítrustu hagsmuna félagsmanna minna,“ segir Ragnar.
Neytendasamtökin hætt viðskiptum
Neytendasamtökin ákváði í sumar að hætta viðskiptum við bankann og hafa þegar beint viðskiptum sínum til annars banka. Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna.
„Stjórn Neytendasamtakanna kom saman í júní og tók þá ákvörðun vegna sölu bankans og aðkomu starfsmanna bankans að henni að hætta viðskiptum við Íslandsbanka og framkvæmdastjóra var falið að beina viðskiptum sínum til annars banka og það var gert,“ segir Breki.