Óvissa ríkir um hver eigi að koma hælisleitendum sem hafa verið sviptir rétti til þjónustu í kjölfar endanlegrar synjunar um alþjóðlega vernd til aðstoðar á grundvelli nýrra útlendingalaga ríkisstjórnarinnar. Dæmi eru um að fólk sem hefur verið svipt þjónustu sé á götunni.
Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, hefur viðrað möguleikann á að koma upp búsetuúrræði fyrir þennan hóp fólks þar sem ferðafrelsi þess væri skert.
Á þriðja tug félagasamtaka hafa lýst yfir áhyggjum af stöðu hælisleitenda og sökuðu ráðamenn um villandi og óljósan málflutning.
Arndís Anna Kristínadóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, segir dögunum og vikunum þar sem fórnalömb vændismansal og annað fólk í gríðarlega viðkvæmri stöðu sé allslaust úti á götu án möguleika á því að bjarga sér sjálft og án lágmarksaðstoðar í færslu á Facebook-síðu sinni.
„Dómsmálaráðherra fabúlerar um opin fangelsi sem enn hafa ekki verið byggð en engar aðrar lausnir verið lagðar til, hvorki tímabundið né til langtíma,“ skrifar Arndís Anna.
Ástandið fari stöðugt versnandi
Þingmaðurinn segist hafa óskað eftir því að allsherjar- og menntamálanefnd þingsins, sem hann á sæti í, haldi opinn fund með ráðherrum, Lagastofnun Háskóla Íslands og aðilum sem hafi brugðist við stöðunni, eins og Solaris-samtökunum.
„Vænti ég þess að boðað verði til fundarsins sem allra fyrst, enda erindið brýnt, ástandið slæmt og fer stöðugt versnandi,“ skrifar Arndís Anna.