Tjónið er mikið fyrir björgunarsveit af þessari stærðargráðu segir Haraldur Helgi Hólmfríðarson, formaður björgunarsveitarinnar Ingunnar á Laugavatni. Óprúttinn aðili hafi komist inn um glugga á svölum húsnæðisins og tekið þar ófrjálsri hendi tæki og tól.
„Þetta er ekki stór sveit og við höfum ekki mikinn pening á milli handanna. Þetta er tjón upp á sjálfsagt rúma hálfa milljón og það er hálf milljón sem við værum til í að eyða í eitthvað annað,“ segir Haraldur.
Innbrotið átti sér stað fyrir nokkrum dögum og var sveitin að vonast til að hlutirnir myndu rata aftur til baka. „Það hefur ekkert skilað sér til baka og við höfum svona svolítið verið að skoða sölusíður á Facebook og Bland og svoleiðis síður og athuga hvort við sjáum eitthvað en það er ekkert þar en sem betur fer var til dæmis dróninn okkar ekki tekið enda kannski ekki auðvelt að koma honum í verð,“ segir Haraldur jafnframt og vonast til að fá búnaðinn til baka.
„Við værum til í að fá þessa hluti aftur og það þurfa ekki að vera neinir eftirmálar af því þetta eru tæki sem eru notuð til að leita af fólki og bjarga fólki. Þetta er allt saman fjármagnað með sjálfboðavinnu og mér finnst bara sárt að einhver hafi þetta í sér,“ segir Haraldur.