Fótbolti

Ís­lendingar í eld­línunni á Norður­löndunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Davíð Kristján Ólafsson var í sigurliði Kalmar í dag.
Davíð Kristján Ólafsson var í sigurliði Kalmar í dag. Kalmar

Fjölmargir leikir fóru fram í Noregi og Svíþjóð í dag. Óskar Borgþórsson skoraði fyrir Sogndal og þá spilaði Valgeir Lunddal Friðriksson í nágrannaslag í Gautaborg.

Meistarar Häcken í Svíþjóð mættu nágrönnum sínum í IFK Gautaborg á útivelli í dag. Valgeir Lunddal Friðriksson var í byrjunarliði Häcken sem var sigurstranglegri aðilinn fyrir leik í dag enda IFK Gautaborg verið í vandræðum allt tímabilið á meðan Häcken er í toppbaráttunni.

Það var þó ekki að sjá í dag. Heimaliðið komst í 3-0 í fyrri hálfleik og 4-0 í síðari hálfleiknum áður en Häcken náði að klóra í bakkann. Lokatölur 4-2 en Valgeir Var einn fjögurra leikmanna Häcken sem skipt var útaf snemma í síðari hálfleik.

Guðmundur Baldvin Nökkvason spilaði allan leikinn fyrir Mjällby sem tapaði 3-0 á heimavelli fyrir Hammarby. Guðmundur Baldvin kom til Mjällby frá Stjörnunni fyrir skömmu og hefur strax fengið tækifæri í byrjunarliðinu og staðið sig vel.

Davíð Kristján Ólafsson spilaði allan leikinn fyrir Kalmar sem gerði góða ferð til Stokkhólms og vann 3-2 sigur á Brommapojkarna. Kalmar er í 7. sæti sænsku deildarinnar eftir sigurinn.

Óskar á skotskónum í Noregi

Óskar Borgþórsson skoraði fyrra mark Sogndal sem vann 2-0 sigur á Skeid í næstefstu deild í Noregi í dag. Jónatan Ingi Jónsson var sömuleiðis í byrjunarliði Sogndal og misnotaði vítaspyrnu skömmu eftir að Óskar kom liðinu forystu.

Júlíus Magnússon lék allan leikinn fyrir Fredrikstad í 1-0 sigri á Hödd og þá spilaði Bjarni Mark Antonsson fyrir Start sem gerði jafntefli við Ranheim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×