Hún segist eiga von á að fá minnisblað með tillögum á næstu sólarhringum.
Eins og frægt er stöðvaði Svandís hvalaveiðar tímabundið í sumar og skipaði hún starfshóp sem meta á leiðir til að bæta aðferðir við veiðar á stórhvölum. Sá hópur skilaði skýrslu sem birt var í gær.
Sjá einnig: Tillögur og úrbætur til þess fallnar að hafa áhrif á árangur hvalveiða
Ákvörðun ráðherrans féll ekki í kramið hjá mörgum innan Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem eru með Vinstri grænum í ríkisstjórn. Meðlimir flokkanna hafa sagt að áframhaldandi hvalveiðibann gæti haft alvarleg áhrif á stjórnarsamstarfið.
Svandís segir það ekki hafa áhrif á ákvarðanatöku sína.
„Eins og alltaf í þessum málaflokki, og öðrum málaflokkum, byggi ég mínar ákvarðanir á faglegu mati, á lögmætum grunni og góðri stjórnsýslu. Það mun ég gera hér eftir sem hingað til,“ sagði Svandís.
Aðspurð um þann málflutning á flokksfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina þar sem því var haldið fram að Svandís hefði brotið stjórnsýslulög, sagðist hún ekki ætla að tjá sig um innanflokksmál Sjálfstæðisflokksins.
„Þau verða bara að tala saman,“ sagði Svandís um gagnrýnina frá meðlimum Sjálfstæðisflokksins.