Ragnheiður Hermannsdóttir, deildarstjóri grunnskóladeildar á Menntasviði Kópavogsbæjar og Amanda K. Ólafsdóttir, deildarstjóri frístundadeildar á Menntasviði Kópavogsbæjar rita nafn sitt undir bréfið. Vísir hefur ekki náð tali af þeim Ragnheiði og Amöndu.
Í bréfinu segir að unglingarnir beri margir því við að þau þurfi hníf, til dæmis vegna viðgerða eða viðhalds á vespum sínum. „En við sem störfum með og fyrir ungt fólk höfum áhyggjur af þessari þróun, þar sem slíkt getur ógnað öðrum unglingum,“ segir í bréfinu.
Þar er minnt á að það að bera hníf á sér í skóla- og félagsmiðstöðvastarfi, eða þeim stofnunum sem tilheyri Menntasviði Kópavogsbæjar, sé stranglega bannað. Það eigi við um grunnskóla, grunnskólalóðir, félagsmiðstöðvar, leikskóla, leikskólalóðir og íþróttamannvirki.
„Brugðist er við ef barn eða unglingur er með hníf undir höndum í ofangreindum stofnunum með sama hætti og við á um neyslu tóbaks, vímuefna- eða áfengisneyslu hjá börnum og unglingum. Hnífurinn er gerður upptækur og foreldrum gert viðvart. Lögreglu er gert viðvart í þeim tilvikum sem hnífum er beitt og meta stjórnendur stofnana hvert tilvik fyrir sig.“
Í ljósi þessa telji starfsmenn bæjarins sem starfa með og fyrir ungt fólk ástæðu til þess að upplýsa foreldra og forráðamenn um þær reglur sem séu í gildi um að bera hníf á sér í skóla-og félagsmiðstöðvastarfi og hvernig Menntasvið Kópavogsbæjar vill taka á þeim málum.