En viti menn: Það geta fylgt því ýmsir jákvæðir kostir að leiðast í vinnunni!
Í nýlegri grein Harvard Business Review segir frá því að samkvæmt rannsóknum, getur það að leiðast í vinnunni verið hið besta mál fyrir okkur stundum. Eitt það jákvæða getur til dæmis verið að þá fær hugurinn smá hvíld frá vinnu.
Þá erum við líklegri til að spyrja okkur spurninga sem við höfum öll gott af því að spyrja okkur reglulega að en erum gjörn á að gleyma. Til dæmis hvort við séum að gera það sem okkur langar að gera? Hvort við séum á þeirri leið sem við ætluðum okkur að vera á?
Í umræddri grein er bent á nokkur atriði sem geta hjálpað okkur að nýta þessa tilfinningu að leiðast í vinnunni, okkur til gagns.
Taktu eftir því þegar þér leiðist
Fyrst er að átta okkur á því að tilfinningin sem við erum að upplifa er að okkur leiðist. Þetta er ekki stundin til að taka ákvarðanir eins og að hætta í vinnunni eða sambærilegt, heldur frekar stundin til að átta okkur á því að það er svona sem okkur líður.
Hvers vegna leiðist þér?
Þá er að átta okkur á því hvers vegna okkur leiðist, hvenær okkur leiðist helst og svo framvegis. Því þetta getur verið afar mismunandi á milli fólks. Er það starfið almennt, eða einstök verkefni? Hvað getur þú lært af því að skilja hvers vegna þér leiðist?
Hvað ætlar þú að gera í málunum?
Það liggur í augum uppi að við getum ekki ákveðið að halda áfram að finnast leiðinlegt. Enda er það svo hundleiðinlegt!
Hvað mögulega getur þú gert til þess að þér hætti að líða svona? Stundum getur lausnin verið sú að virkja okkur í áhugamáli eða ástríðu utan vinnu, sem okkur finnst svo gaman að hugsa um í vinnunni líka að við hreinlega gleymum því að láta okkur leiðast.
Stundum getum við virkjað okkur í verkefnum í vinnunni sem okkur finnst skemmtileg. Eða einfaldlega íhugað hvers konar starfi við viljum þá frekar vera í og hvað í því starfi tryggir að okkur leiðist ekki þar líka?
Að virkja leiðindin til góðs
Loks er það að nýta okkur leiðindin á markvissan og góðan hátt. Því þegar að við kryfjum leiðindin og það hvenær og hvers vegna okkur leiðist, getum við sett af stað viðhorfsbreytingu, áætlanagerð eða búið til eitthvað annað tækifæri sem gagnast okkur. Jafnvel að hugsa svolítið út fyrir boxið og í kjölfar þess að taka ákvörðun um hvað við ætlum að gera til að hætta að láta okkur leiðast.
Því hver er sinnar gæfu smiður ekki satt?