„Það voru nemendur sem urðu vitni að slysinu og meðal annars nemendur sem voru í tíma hjá kennara, sem tók þau bara í fangið og fór með þau inn í stofu og ræddi við þau og veitti stuðning eins og hún gat,“ segir Kolfinna Jóhannesdóttir, skólastjóri Kvennaskólans í Reykjavík í samtali við Vísi.
Tilkynning um slysið barst lögreglu klukkan 13:23 í gær. Þar varð árekstur sendibíls og skotbómulyftara og lést ökumaður sendibílsins, karlmaður á fertugsaldri.
Kolfinna segir fleiri nemendur skólans auk þess hafa orðið vitni að slysinu, enda hafi það átt sér stað mjög nálægt skólanum. Stjórnendur hafa unnið eftir viðbragðsáætlun vegna málsins.
„Í þessu tilviki funduðum við stjórnendur um málið og höfðum samband við Rauða krossinn um svona leiðbeiningar varðandi áfallahjálp í svona tilvikum og sendum síðan póst á foreldra og létum vita að einhverjir nemendur höfðu orðið vitni að slysinu og að við myndum bjóða þeim nemendum áfallahjálp sem þurfa þess.“
Þá hafi nemendum verið sendur bæklingur frá Rauða krossinum með leiðbeiningum og þeir hvattir til að leita til skólastjórnenda þurfi þeir á áfallahjálp að halda vegna málsins.
Nemendur og kennarar eru slegnir?
„Já. Við erum öll slegin yfir þessu hræðilega slysi og það er náttúrulega hluti af viðbrögðunum, að auðvitað hlúa að nemendum og okkur sjálfum og auðvitað hugsum við með hlýju og kærleik til aðstandenda og þeirra sem tengjast slysinu.“
Að sögn Kolfinnu féll tími niður í morgun hjá kennaranum sem var með nemendum sem urðu vitni að slysinu úr kennslustofu í Miðbæjarskólanum. Að öðru leyti hafi skólahald farið fram með eðlilegum hætti.