Í gær greindum við frá því undirbúningur lögreglu fyrir komu rafbyssa væri í fullum gangi undir handleiðslu erlendra sérfræðinga. Það er í samræmi við umdeilda reglubreytingu fyrrverandi dómsmálaráðherra í janúar þegar rafbyssunotkun lögreglu var heimiluð. Nýr dómsmálaráðherra hóf í júní innleiðingu nýja vopnsins og segir mikla áherslu lagða á varfærin og örugg skref.
„Það verða eingöngu menntaðir lögreglumenn sem fá að bera rafvarnarvopn eftir að hafa hlotið til þess viðunandi og góða kennslu. Síðan mun ég skipa eftirlitshóp með rafvarnarvopnum þannig í hvert sinn sem slíku vopni verður beitt verður hvert einasta tilfelli skoðað og ígrundað,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Hún segir að reynsla vopnanna verði skoðuð eftir átján mánuði og staðan endurmetin.
Kaupir ekki fullyrðingar sérfræðinga
Þingmaður Pírata gefur lítið fyrir fullyrðingar erlendra sérfræðinga um að vopnið sé öruggara en mörg önnur vopn sem lögreglan noti.
„Ég kaupi það ekki alveg, niðurstöðurnar sem eru frá framleiðandanum passar ekki alveg saman við það hvernig þær eru í notkun til dæmis í Bandaríkjunum og Kanada. Það er ekki eins há svona góð tíðni eins og framleiðandinn segir að það sé og þegar allt kemur til alls þá er dálítið áhugavert að heyra þau rök að þetta sé vægara en kylfan eða gasið en fólk er samt í rauninni hræddara við þetta,“ segir Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata.
Björn Leví telur að fælingarmátturinn verði lítill sem enginn og óttast að með notkun rafbyssa aukist valdbeiting og vopnavæðing.
„Niðurstöður hafa til dæmis sýnt í Hollandi að þetta eykur í raun valdbeitingu,“ sagði Björn Leví við fréttastofu.