Atvinnulíf

Hamingjuvikan í vinnunni er núna: Snjóboltinn er farinn að rúlla

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Hamingjuvikan í vinnunni, International Week of Happiness at Work stendur nú yfir. Héðinn Sveinbjörnsson hefur talað fyrir því að íslenskir vinnustaðir taki þátt og á morgun mun Atvinnulífið taka dæmi um eitt þeirra fyrirtækja sem er að gera það.
Hamingjuvikan í vinnunni, International Week of Happiness at Work stendur nú yfir. Héðinn Sveinbjörnsson hefur talað fyrir því að íslenskir vinnustaðir taki þátt og á morgun mun Atvinnulífið taka dæmi um eitt þeirra fyrirtækja sem er að gera það. Vísir/Vilhelm

Alþjóðlega hamingjuvikan í vinnunni 2023 er þessa vikuna, eða International Week of Happiness at Work. Þessi vika var fyrst kynnt til sögunnar árið 2018 og því ekki langt um liðið auk þess sem heimsfaraldurinn skall á í millitíðinni.

En snjóboltinn er farinn að rúlla segir Héðinn Sveinbjörnsson hamingjustjóri, sem síðustu misseri hefur talað fyrir því að sem flestir vinnustaðir taki þátt í hamingjuvikunni.

Í dag og á morgun fjallar Atvinnulífið um alþjóðlegu hamingjuvikuna árið 2023. Í dag segjum við frá því hvaða hamingjutengdu viðburðir eru í boði frítt á vegum Héðins, en á morgun frá því hvað fjölmennur íslenskur vinnustaður er að gera fyrir sitt starfsfólk í tilefni vikunnar.

Vinnan og hamingja

Héðinn segir að þótt hann hvetji vinnustaði til að taka þátt í þessari alþjóðahamingjuviku vinnunnar, sé ekki þar með sagt að fyrirtæki séu ekki að gera margt allt árið um kring til að auka á vellíðan og ánægju starfsmanna sinna.

Ég heyri stundum ákveðinn misskilning þessu tengt. Ég er kannski að tala við fyrirtæki um að taka þátt í þessari viku og fæ svarið „Já en við erum alltaf að gera eitthvað fyrir okkar fólk. Sem er auðvitað frábært. 

Að standa fyrir alþjóðlegri hamingjuviku í vinnunni snýst hins vegar um að atvinnulífið staðfesti þá meðvitund sína að það að starfsfólkið sé hamingjusamt í vinnunni, skipti atvinnulífið gríðarlega miklu máli.“

Sem dæmi nefnir Héðinn að alls staðar séu vinnustaðir að keppast að því að auka á helgun starfsmanna, eða engagment eins og það nefnist á ensku.

„Á heimsvísu er þessi helgun starfsmanna að mælast 23%, á Íslandi 26%. Þetta eru ekki háar tölur. Hvað veldur?“ spyr Héðinn og bendir á að þarna sé strax sterk vísbending um það hversu mikið vinnustaðir geta uppskorið af því að vinna út frá því að byggja upp hamingju starfsfólks.

Sjálfur hefur hann fengið ýmsa fyrirlesara úti í heimi til að bjóða Íslendingum upp á áhugaverða fyrirlestra í þessari viku. Þessa fyrirlestra er hægt að taka þátt í á streymi í gegnum ráðgjafafyrirtæki Héðins, Handson.

„Þarna er ég búinn að fá aðila sem eiga það sameiginlegt að vera statt og stöðugt í því að vinna að hamingju starfsfólks eða öðru því tengt. Allt frá því að tala um uppbyggingu hamingju á vinnustað, að tala um mikilvægi þakklætis yfir í að segja frá skemmtilegum hamingjumælikvarða sem búið er að búa til fyrir starfsfólk til að gera þeim betur kleift að láta vita af því með einföldum hætti hversu ánægð eða hamingjusöm fólk er hverju sinni.“

Þetta er annað árið í röð sem Héðinn er fyrir alvöru að tala um það upphátt og hvetja vinnustaði til að taka þátt í hamingjuvikunni með einhverjum hætti.

„Fyrst þegar ég nefndi þetta rakst ég bara á vegg. Enda ekkert skrýtið því þá var Covid í gangi. En í fyrra fór ég formlegri af stað og mín sýn er sú að á Íslandi verði aukin þátttaka sjálfsögð á hverju ári. Þar sem vinnustaðir leyfa sér hreinlega að setja fókusinn á hamingju starfsfólks og mikilvægi hamingjunnar þessa viku sem alþjóðlega hamingjuvikan stendur yfir.“

Hefur þér fundist íslensk fyrirtæki vera í auknum mæli að kveikja á perunni?

„Nei ég get nú ekki sagt að það sé að gerast mjög hratt,“ segir Héðinn og hlær.

Þetta er svona eins og í ljóðinu Fjallgangan. 

Urð og grjót. 

Upp í mót. 

Ekkert nema urð og grjót….“

Héðinn segist samt sannfærður um að þetta muni breytast smám saman. Taka þurfi tillit til þess að þessi alþjóðlega vika sé enn frekar ný á nálinni.

„Mér finnst samt mjög gaman að sjá á LinkedIn að það eru sífellt fleiri fyrirtæki úti í heimi að taka þátt og ég sá það síðast í gær. Sjálfur skrifa ég greinarnar mínar á ensku til að ná til sem flestra og í sumar var ég til dæmis með fjölsóttan fyrirlestur fyrir vinnustað í Suður Afríku. Þetta er því erindi sem á til atvinnulífsins alls staðar.“

Héðinn segir að fyrirlestrarnir sem Handson fyrirtækið hans standi fyrir fari þannig fram að fyrst tali gesturinn í um hálftíma og síðan taka við umræður sem hann stýrir.

„Og þá opnast bara fyrir skemmtilegt spjall á milli gestsins og þeirra sem sækja viðburðinn.“

Viðburðirnir fara fram á ensku, eru á netinu og eru ókeypis. Hægt er að skoða dagskrá vikunnar og tengjast viðburðum HÉR.


Tengdar fréttir

„Þá segir Jói: Veistu, þetta er mesta snilld sem ég hef heyrt!“

„Ég man þegar að við tókum við rekstri Rush Trampólín garðsins að þá var eitt það fyrsta sem starfsfólkið spurði okkur „Þýðir það þá að við fáum Pétur Jóhann til okkar líka?““ segir Jóhannes Ásbjörnsson einn eigenda Gleðipinna um hversu vel starf Péturs Jóhanns Sigfússonar í hlutverki Móralska er að mælast hjá starfsfólki.

Starfs­á­nægja: Vandinn vex þegar „hveiti­brauðs­dögunum“ er lokið

Flestir starfsmenn eru ánægðir í starfinu sínu og það á þá helst við um smærri fyrirtæki. Sambandið við yfirmanninn skiptir mestu máli þegar spurt er um starfsánægju og margir vinnustaðir eiga erfitt með að halda starfsfólki ánægðu eftir að nýjabrumið í nýju starfi er farið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×