Sjaldan hafa ofbeldisverk sem tengjast átökum glæpagengja verið eins áberandi í Svíþjóð og nú. Síðasta sólarhringinn eru þrjú dauðsföll rakin til átakanna og er septembermánuður orðinn sá mannskæðasti í fjögur ár. Það sem af er mánuðinum hafa ellefu dauðsföll verið rakin til átaka glæpagengja.
Í ávarpi sínu byrjaði Ulf á því að ávarpa fjölskyldur hinna látnu og annarra sem hafa orðið fyrir barðinu á ofbeldinu síðustu mánuði. Hann sagði að hugur sinn væri hjá þeim. Þá lagði Ulf áherslu á að hafa hendur í hári meðlima glæpagengjanna.
„Við beitum öllum tiltækum ráðum, það kemur allt til greina,“ segir Ulf. Hann sagði sænsk lög ekki gera ráð fyrir stríði glæpagengja líkt og þessu og að börn væru notuð í þeim tilgangi. Sagði hann að breytingar yrðu gerðar á löggjöf landsins til að bregðast við.
Þegar hefur sænska ríkisstjórnin fyrirskipað að fangelsismálayfirvöld ráðist í gerð sérstakra unglingafangelsa sem eigi að vera tilbúin 2026. Stór hluti þeirra sem standa fyrir skotárásum og sprengingum eru ungir piltar, undir lögaldri.
Þá hvatti forsætisráðherrann alla stjórnmálaflokka landsins til þess að sameinast í baráttunni gegn ofbeldinu. Hann þakkaði jafnframt lögregluyfirvöldum í landinu fyrir sín störf.