Enski boltinn

Eigandi Bournemouth ætlar að stofna nýtt félag í áströlsku úrvalsdeildinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Bill Foley fer fyrir hópi fjárfesta
Bill Foley fer fyrir hópi fjárfesta

Bill Foley, eigandi enska úrvalsdeildarliðsins Bournemouth, hefur tryggt forkaupsrétt á nýju félagi í Auckland, fjölmennustu borg Nýja-Sjálands. Meðal hluthafa í fjárfestingahópnum sem Bill Foley leiðir er kvikmyndastjarnan Michael B. Jordan og Ryan fjölskyldan, sem á minnihluta í Chicago Bears í NFL deildinni. 

Foley er meðeigandi og framkvæmdastjóri Black Knight Football Group, hópi fjárfesta sem keypti Bournemouth síðastliðinn desember og fjárfesti í franska félaginu Lorient. 

Ástralska úrvalsdeildin tilkynnti áætlanir fyrr á þessu ári um að bæta tveimur nýjum liðum við deildina, einu í Auckland og öðru í Canberra, höfuðborg Ástralíu. Bæði lið myndu hefja keppni í úrvalsdeild karla og kvenna á næsta tímabili. 

Foley og félagar í fjárfestingahópnum hafa verið í leit að nýjum tækifærum og liðum til að eignast, þau hafa meðal annars skoðað sig um í Belgíu, Brasilíu og Skotlandi. 

Bill Foley er vel kunnugur Nýja-Sjálandi en hann rekur þar hótel og veitingastaði auk þess að halda úti sex vínekrum. 

Tilkoma þessara tveggja nýju liða mun breyta áströlsku úrvalsdeildinni úr 12 liða í 14 liða deild og félagið sem stofnað verður í Auckland verður annað tveggja Ný-Sjálenskra liða deildarinnar. 

Þegar gengið var frá kaupunum á Lorient sagði Foley félagið vera kjörið tækifæri til þess að þróa leikmenn og selja þá áfram. Markmiðið væri að halda úti nokkrum félögum um allan heim sem gætu á endanum veitt Bournemouth liðsstyrk. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×