Skoðun

Menningarminjar að sökkva í sæ

Jódís Skúladóttir skrifar

Það bárust sorgarfréttir á dögunum um andlát Harðar Sigurbjarnarsonar. Húsvíkingar hafa misst einn af máttarstólpum samfélagsins en árum saman var Hörður mikil driffjöður framfara og uppbyggingar á svæðinu. Ég votta ættingjum og vinum Harðar mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ég var svo heppin að hitta Hörð í hans vígi á Húsavík fyrir nokkru síðan hvar við ræddum meðal annars hið sögufræga skip Maríu Júlíu, gamla björgunarskip Vestfirðinga, honum fannst mikið til þessa gamla eikarskips koma. Eldmóður hans og ástríða voru smitandi og kveikti hann áhuga minn á okkar verðmæta skipaarfi sem nú er í bráðri hættu.

Verndun og varðveisla skipa og báta er hluti af alþýðumenningu og atvinnusögu Íslendinga. Mikið magn verðmætra menningargersema mun að óbreyttu hverfa í sæ vegna ágangs náttúruaflanna á komandi árum. Það má hreinlega ekki gerast og það er á okkar ábyrgð að grípa í taumana áður en það verður of seint.

Um er að ræða talsvert magn ómetanlegra menningarverðmæta um sjávarútveg og sjósókn Íslendinga frá landnámi og allt fram á 20. öld. Þrátt fyrir að bátar teljist menningarminjar, forngripir og fornminjar í augum laganna hefur ekki tekist að koma á fyrirkomulagi sem tryggir vernd þeirra og björgun. Viðhald og björgun bátaarfsins hefur að þeim sökum verið á höndum einstaklinga og samtaka áhugafólks

Ég hef nú, í annað sinn, lagt fram þingsályktunartillögu um fjármögnun varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfsins.

Markmið þessarar tillögu er að komið verði skikki á varðveislu og björgun þessa menningararfs. Fjöldi þingmannamála og fyrirspurna síðustu ára benda til þess að áhugi sé á málaflokknum enda um fágætar menningarminjar að ræða, sem víða liggja undir skemmdum. Þrátt fyrir brýnt erindi og áhuga hefur lítið áunnist í málaflokknum og víst að svo verði á meðan ekki kemur til skýr stefnumörkun, heildarsýn og raunhæf markmið stjórnvalda.

Við erum að falla á tíma og nú er lag. Það er ábyrgðarhluti að við björgum okkar þjóðargersemum áður en það er um seinan. Um það vorum við Hörður sammála.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna. 




Skoðun

Sjá meira


×