Á fjórtánda tímanum síðastliðinn fimmtudag var lögregla kölluð út að fangelsinu Litla-Hrauni vegna hnífstunguárásar. Maðurinn sem varð fyrir árásinni lá þungt haldinn á sjúkrahúsi í kjölfarið en lögregla hefur nú rætt við manninn.
„Ég veit ekki hvernig líðan hans er síðan fyrir helgi en hann jafnar sig á þessu. Það hefur verið rætt við hann,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. Þá sé búið að ræða við flest, ef ekki öll vitni.
Er árásarmaðurinn settur í einhvers konar einangrun innan fangelsisveggjanna?
„Við fórum ekki fram á það. Við gætum farið fram á gæsluvarðhald þó hann sé í fangelsi og ef það eru einhverjir rannsóknarhagsmunir þá gætum við farið fram á einangrun eða eitthvað slíkt. En við töldum enga rannsóknarhagsmuni sérstaklega í þessu máli sem þýddu að það þyrfti að fara fram á það,“ segir Sveinn.
„Ég þekki ekki hvernig reglur fangelsins eru þegar svona kemur upp en væntanlega eru einhverjar agareglur.“
Hann segir nokkuð skýra mynd komna á málsatvik. Til rannsóknar er hvort árásin tengist skotárás sem framin var í Úlfarsárdal í byrjun mánaðar annars vegar og hins vegar annarri hnífstunguárás, sem framin var í höfuðborginni á föstudagsmorgun.
„Við erum bara í samtali við höfuðborgarsvæðið með þessa hluti og að skoða þetta allt í samhengi.“