Sunna kann vel við sig í Noregi eftir að hafa búið þar um hríð fyrir nokkrum árum.
„Ég bjó í Noregi og er með mikla Noregsnostalgíu. Þetta er bara ótrúlega ljúft og gott,“ segir Sunna. Eitthvað af norskunni sitji þá eftir. „Maður reynir alltaf.“
Mikil spenna
Stemningin sé góð í hópnum. Spennan sé eðlilega afar mikil fyrir fyrsta leiknum á stórmóti í yfir áratug.
„Stemningin er ótrúlega góð. Þetta er flottur og vel samstilltur hópur. Við finnum eftir að við komum hingað til Stafangurs að þetta er smá breytt. Það er mikill spenningur en samt smá ró,“
„Við erum mjög spenntar og ég finn á hópnum að okkur langar þetta ótrúlega mikið. Við ætlum okkur hluti. Þetta æfingamót gerði okkur gott og losaði um smá skrekk þar. Núna er komið að alvörunni,“ segir Sunna.
Sunna var hvíld í leiknum við Angóla á æfingamótinu á sunnudaginn var en kveðst ekki vera að glíma við nein meiðsli og er klár í slaginn.
„Ég er orðin aðeins ein af þeim eldri og ég fékk smá hvíld. Þær sem komu inn stóðu sig ótrúlega vel og ég er bara klár í alla leiki,“ segir Sunna.
„Algjör kjúlli síðast“
Sunna er ein tveggja í hópnum, ásamt herbergisfélaga sínum Þóreyju Rósu Stefánsdóttur, sem áður hefur farið á stórmót. Hún segir stöðu sína vera aðeins öðruvísi en þá.
„Maður var náttúrulega algjör kjúlli síðast og engin pressa á manni. Við tvær sem höfum farið, við vissum svo sem alveg hvað við værum að fara út í. Þetta er miklu stærra svið, með fjölmiðla og allt miklu meira um sig. Við vorum meðvitaðar um það, þetta er erfitt en líka skemmtilegt,“ segir Sunna.
Leikur Íslands og Slóveníu hefst klukkan 17:00 og verður lýst beint á Vísi. Allar helstu fregnir af landsliðinu má einnig finna á sportvefnum eftir því sem þær berast.