Í dönsku miðlunum er því lýst sem „jólakraftaverki“ að Wales hafi náð jafntefli við Þýskaland í gær, í Þjóðadeild kvenna í fótbolta. Það jafntefli þýddi að Dönum dugði sigur gegn Íslandi til að vinna riðilinn og komast í fjögurra liða úrslit keppninnar, þaðan sem þrjú lið komast á Ólympíuleikana í París næsta sumar.
En íslenska vörnin, með hina 18 ára gömlu Fanneyju Ingu Birkisdóttur stórkostlega í markinu, hélt hreinu gegn Dönum og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði sigurmark í seinni hálfleik.
Þessu lýsir danski ríkismiðillinn DR sem „fíaskói“ og flestir leikmanna liðsins fá falleinkunn hjá bæði sérfræðingum og lesendum miðilsins.
„Ég trúi þessu ekki enn þá. Það var algjör draumur að komast á Ólympíuleikana. Eða að spila að minnsta kosti um sæti þar, þar sem allt hefði getað gerst. En við fáum það ekki því við vorum ekki nógu skilvirkar í dag, og það er ofboðslega sárt,“ sagði Frederikke Thögersen, leikmaður danska liðsins, við TV 2.
„Þetta er svo vont“
Fyrirliðinn Stine Ballisager tók í sama streng: „Þetta er svo vont. Fyrir fram fannst manni Ólympíuleikarnir svo langt í burtu. Svo voru þeir allt í einu svo nærri en svo aftur langt í burtu. Þetta er bara svo vont, þegar maður vill upplifa draum og það hefði verið svo stórt að komast á Ólympíuleikana, en svo tókst það ekki, og þetta var bara ekki nógu gott hjá okkur,“ sagði Ballisager.
„Maður er bara tómur núna. Mér finnst það helvíti hlægilegt, ef maður má blóta, að við skulum ekki hafa gengið harðar eftir þessu og að við höfum ekki sýnt meiri vilja, spilandi hér á heimavelli,“ sagði Sanne Troelsgaard við Ekstra Bladet.
Lokastaðan í riðlinum var sú að Þýskaland fékk 13 stig og vann, Danmörk hlaut 12 stig, Ísland 9 stig og Wales aðeins eitt stig. Þýskaland og Danmörk eru því örugg um að halda sæti sínu í A-deild, Ísland fer í umspil við lið úr B-deild í lok febrúar, en Wales fellur.