„Íslendingar hafa alveg verið með línu eins og þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Og við höfum alltaf lagt áherslu á okkar gildi. Það er svo sannarlega mannúð og mannréttindi sem eru þar fremst í flokki,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi umhverfismálaráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra, um utanríkisstefnu Íslands.
„Þannig höfum við beitt okkur. Við höfum gert það að undanförnu og munum halda því áfram, það er alveg skýr lína,“ sagði hann jafnframt.
Hræðilegt ef setja þurfi öryggisgæslu fyrir ráðherra
Mótmælendur helltu glimmeri yfir Bjarna Benediktsson, núverandi utanríkisráðherra, á föstudag en Guðlaugur segir það mál alvarlegt.
„Það væri alveg hræðilegt ef við þyrftum að fara á þann stað að vera með öryggisgæslu fyrir ráðamenn þjóðarinnar. Við skulum ekki gleyma því að þetta svokallaða glimmer eða hvað þú vilt kalla þetta, það er hægt að nota ýmislegt annað. Þetta sló mig vægast sagt illa og mér fannst sorglegt að sjá þetta,“ segir Guðlaugur.
Rætt var við Guðlaug í kvöldfréttum Stöðvar 2 í dag í fréttapakka um átökin á Gasasvæðinu. Viðtalið við Guðlaug má sjá eftir fyrstu mínútu myndbandsins hér að neðan.