Innlent

Fyrstu brott­farir klukkan ellefu

Árni Sæberg skrifar
Vinnustöðvanir flugumferðarstjóra hafa mikil áhrif á Icelandair og Play.
Vinnustöðvanir flugumferðarstjóra hafa mikil áhrif á Icelandair og Play. Vísir/Vilhelm

Verkfallsaðgerðir Félags íslenskra flugumferðarstjóra héldu áfram í nótt þegar flugumferðarstjórar lögðu niður störf í þriðja skiptið. Verkfallið hefur áhrif á alla umferð um Keflavíkurflugvöll og fjölda flugferða hefur verið frestað.

Vinnustöðvunin hófst klukkan 04 í nótt og stendur til klukkan 10 í dag. Það er sami tímarammi og í fyrri vinnustöðvununum tveimur, á þriðjudag og fimmtudag síðustu viku.

Það hefur þau áhrif að fyrstu flugvélarnar lenda á Keflavíkurflugvelli á slaginu 10, ef áætlanir halda, og fyrstu brottfarir frá vellinum eru á dagskrá klukkan 11.

Íslensku flugfélögin tvö hafa lagt mikið púður í að breyta flugáætlunum sínum til þess að takmarka röskun á leiðakerfinu. Forstjóri Icelandair segir þó að líkur aukist á því að ekki allir komist heim fyrir jól. Algjör pattstaða er sögð vera í kjaradeilu Isavia og flugumferðarstjóra.

Næsta boðaða vinnustöðvun hefst klukkan 04 á aðfararnótt miðvikudags en enginn sáttafundur hefur verið boðaður. Þá herma heimildir Morgunblaðsins að drög að frumvarpi um lög á verkfallið séu tilbúin í innviðaráðuneytinu. Ekkert hefur þó fengist staðfest í þeim efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×