Skoðun

Bleiki fíllinn í postulíns­búðinni

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Ég vil hrósa aðilum vinnumarkaðarins fyrir ábyrga nálgun í upphafi kjaraviðræðna. Verðbólgu og vaxtabölið er bleiki fíllinn í postulínsbúðinni. Lífsgæði og afkoma flestra ráðast að mestu af þessum þáttum og sveitarfélögin eru ekki stikkfrí.

Gjaldskrárhækkanir upp á 9,9%, fyrir árið 2024 að jafnaði, var samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðar nú í desember þegar fjárhagsáætlun bæjarins var afgreidd. Bæjarfulltrúi Viðreisnar greiddi einn bæjarfulltrúa atkvæði gegn áætluninni, m.a. vegna hinna óskynsamlegu hækkana á gjaldskrá sem undirritaður taldi verðbólguhvetjandi.

Ákall fulltrúa vinnumarkaðarins um að ríki, sveitarfélög og atvinnulífið stilli verðhækkunum í hóf er ein af grundvallarforsendum góðrar niðurstöðu í kjaraviðræðum og að markmið um vaxta og verðbólgulækkun gangi eftir.

Það skiptir stórskuldug sveitarfélög meira máli að ná niður vöxtum og verðbólgu heldur en óhófleg gjaldskrárhækkun á þjónustu sinni. Lækkun verðbólgu og vaxta mun gera miklu meira fyrir reksturinn og þá nauðsynlegu uppbyggingu sem flest sveitarfélög standa frammi fyrir en hækkun gjaldskrár.

Það er því allra hagur að sveitarfélög stilli hækkunum í hóf og standi saman og sýni fordæmi þegar kemur að því að taka í handbremsu verðhækkana. Hóflegar launahækkanir eru sveitarfélögum í hag og munu án efa vega upp þá gjaldskrárlækkun sem nauðsynleg er.

Það er af þessum ástæðum sem Viðreisn hefur lagt það til við bæjarráð að Hafnarfjörður skipi sér í forystuhlutverk í sveitarstjórnarmálum eins og bænum ber og takmarki hækkanir við 3,5%. Slíkt mun skila sér margfalt til baka.

Ég hvet öll sveitarfélög landsins að takmarka gjaldskrárhækkanir sínar. Það mun skila sér margfalt til baka, bæði fyrir bæjarsjóði og íbúa.

Það er kominn tími til að einhver axli pólitíska ábyrgð og forystu.

Höfundur er bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði.




Skoðun

Sjá meira


×