„Ég ætla að bjóða mig fram á Bessastaði, kem til með að byrja á því að flytja inn nýjasta Bentleyinn í svörtum lit og fer ekki út úr húsi nema á vel flögguðum bíl með ísl fánanum eins og tíðkaðist forðum ásamt fylgdarliði, svo langar mig í tvo stóra Rottweiler á lóðina,“ skrifar Ásdís á léttum nótum í færslu á Facebook.
„Ég kem til með að ráða beauty team á Bessastaði og einungis dressa mig í fínasta pússi frá þekktustu hönnuðum heims, og í leiðinni setja dresscode á þingmennina, tískan hjá þessum hóp er til skammar.“
Kona fólksins
Ásdísi er enn fremur umhugað um fólkið í landinu, unga sem aldna.
„Ég ætla að setja ný lög um sérstaka skatta á fólk og fyrirtæki sem eiga ekki aura sinna tal og hirða af þeim góða prósentu, eins og í Svíþjóð, sem fer beint í að byggja fullt af leikskólum, ódýrum eða fríum íbúðum fyrir ungt fólk, aldraða og öryrkja ásamt auðvitað frírri læknisþjónustu fyrir almenning sem tíðkast líka hjá nágranna löndum okkar.“
Akureyri næsta höfuðborg Íslands
Ásdís ber sterkar taugar til Akureyrarbæjar og segist vilja gera Akureyri að höfuðborg Íslands árið 2050. Fjarri hættunni sem stafi af jarðhræringum á suðvesturhorninu.
„Ég kem til með að byrja fólksflutninga til Akureyrar þar sem ný höfuðborg verður krýnd 2050 í sólinni án jarðhræringa. Á sama tíma verða framkvæmdir á stærsta skíðasvæði Evrópu upp á jökli nær Akureyri og alþjóðaflugvöllur í leiðinni.“
Auk þess væri Ásdís til í að ferðast um í sérmerktri einkaþotu. Hún segist ekki ætla að fljúga á almennu farrými til að geðjast fólki.