Manns sem var við vinnu við jarðvegsþjöppun eftir sprungufyllingu í Grindavík hefur verið leitað síðan á ellefta tímanum í morgun. Í ljósi þessa hefur Grindavíkurbær ákveðið að fresta íbúafundi sem boðaður hafði verið á morgun.
„Í ljósi þess hörmulega slyss sem átti sér stað í Grindavík í dag, hefur verið tekin ákvörðun um að fresta íbúafundinum sem var á dagskrá á morgun fram í næstu viku. Nákvæm tímasetning verður auglýst síðar,“ segir í tilkynningu frá bænum.
Fundurinn var boðaður vegna þess að nú mega Grindvíkingar verja öllum sólarhringnum heima hjá sér og stöðunnar í bænum almennt.