
Ríkisstjórnin kom saman til aukafundar í morgun vegna stöðunnar í Grindavík. Þar var ákveðið að framlengja afkomustuðning við Grindvíkinga sem gripið var til þegar fyrstu hamfarirnar riðu yfir í nóvember. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að reikna megi með að sá stuðingur fari langt inn á þetta ár. Þá hafi staða húsnæðismála Grindvíkinga einnig verið rædd.

„Hún er enn þá óviðunandi. Þannig að það verður settur aukinn kraftur í að kaupa íbúðir til að þær séu í boði fyrir Grindvíkinga. Við vorum að fara yfir mál sem varðar rekstrarstuðning til fyrirtækja. Hvernig við getum útfært hann,“ segir Katrín.
Þá hafi verið farið yfir uppgjör á húseignum í Grindvaík. Atburðir helgarinnar hafi hins vegar sett strik í þann reikning sem annars hafi verið langt kominn og því þurfi að vinnna áfram að þeim málum. Ríkisstjórnin muni funda með bæjarstjórn Grindavíkur á morgun.
„Við munum síðan sitja yfir þessari vinnu á morgun og það er auðvitað íbúafundur líka á morgun þar sem við munum heyra beint ofan í íbúa. Ég á von á að við munum einnig eiga fund með stjórnarandstöðunni í vikunni. Því þetta er auðvitað mál sem allt þingið hefur líst miklum vilja og áhuga til að koma að og leysa,“ segir forsætisráðherra.

Búast megi við að nokkur frumvörp liggi fyrir þegar Alþingi komi saman í næstu viku. Forsætisráðherra segir jákvætt að varnargarðar hafi sannað gildi sitt í gosinu í gær
„Við viljum gera það sem við getum til að verja byggðina í Grindavík. Þess vegna erum við auðvitað með þessa varnargarða sem við höfum verið að byggja upp. Og við sjáum að skila árangri og ég vænti þess að við höldum áfram með þá uppbyggingu þannig að við getum varið byggðina í Grindavík til framtíðar,“ segir Katrín Jakobsdóttir.