Talið er að maðurinn, hinn tuttugu og þriggja ára gamli Romeo Nance hafi skotið sig eftir að lögregla hafði umkringt hann. Mikil leit var gerð að honum í nótt eftir að hann hóf árásir sínar sem voru á mörgum stöðum í borginni. Sjö fórnarlambanna fundust í tveimur húsum í nótt og áttunda líkið hafði fundist daginn áður.
Þá er einnig talið að Nance hafi sært enn eitt fórnarlambið skotsári á öðrum stað í borginni en sá særðist ekki alvarlega. Hann virðist hafa lagt á flótta eftir árásirnar en lögreglumenn höfðu upp á honum í bænum Natalia í Texas á þriðja tímanum í nótt.
Ekki er vitað hvað árásarmanninum gekk til en fólkið er talið hafa tilheyrt sömu fjölskyldunni og að morðinginn hafi þekkt þau.