Í dag er lokadagur félagaskiptagluggans í helstu knattspyrnudeildum Evrópu og lokast glugginn klukkan 19 á Ítalíu.
Fiorentina þarf því að hafa hraðar hendur til að landa Alberti eftir að Genoa hafnaði 22 milljóna evra (tæplega 3,3 milljarða króna) tilboði í hann í gær.
Samkvæmt ítalska blaðamanninum Nicolo Schira, sem sérhæfir sig í félagaskiptafréttum, ætlar Fiorentina að leggja fram nýtt tilboð.
Þá segir Schira að Albert sé búinn að samþykkja samning við Fiorentina sem myndi gilda til 2028, með möguleika á árs framlengingu. Samningurinn myndi tryggja Alberti tvær milljónir evra í árslaun, eða jafnvirði tæplega 300 milljóna króna. Hann fengi því um 820.000 krónur á dag í laun.
#Fiorentina are pushing to try to convince #Genoa to sell Albert #Gudmundsson. Viola will submit a new bid to Genoa and have already reached an agreement in principle with the icelandic player for a contract until 2028 ( 2M/year) with option for 2029. #transfers @violanews
— Nicolò Schira (@NicoSchira) February 1, 2024
Ljóst er að Genoa tekur ekki í mál að fá minna en 25 milljónir evra fyrir Albert, jafnvirði 3,7 milljarða króna, og upphaflega fór félagið fram á 30 milljónir evra.
Fiorentina er sem stendur í 6. sæti ítölsku A-deildarinnar, með 34 stig eftir 21 leik, og aðeins stigi á eftir Roma og tveimur á eftir Atalanta, í harðri baráttu um Evrópusæti og þá helst sæti í Meistaradeild Evrópu.
Genoa er nýliði í deildinni en þó í 11. sæti með 28 stig, ekki síst vegna Alberts sem skorað hefur níu mörk á leiktíðinni en aðeins þrír leikmenn hafa skorað fleiri mörk í deildinni það sem af er.
Albert, sem er 26 ára gamall, kom til Genoa frá AZ í Hollandi fyrir akkúrat tveimur árum.