Rúmlega hundrað Palestínumenn, aðallega konur og börn, sem hafa dvalarleyfi á Íslandi eru enn föst á Gasa. Dómsmálaráðherra sagði í fréttum um helgina að ríkisstjórnin væri ekki búin að ákveða hvort hún muni bjarga dvalarleyfishöfunum og tók sérstaklega fram að íslenskum stjórnvöldum bæri engin skylda til þess.
Albert Lúðvíksson, lögfræðingur, hefur fylgst með því í forundran hvernig stjórnvöld hafa haldið á málum. Það sé ekki eins flókið að bjarga dvalarleyfishöfunum eins og gefið hefur verið í skyn.
„Hin Norrænu ríkin hafa staðið sig býsna vel að aðstoða fólk í svipaðri stöðu að komast út af Gasa. Þetta er verkefni og ekki eitthvað sem flókið að leysa.“
The Guardian hefur eftir heimildarmönnum sínum á Gasa að hundrað tuttugu og sjö manns hefðu látist í árásum Ísraelshers í nótt. Óttast er að aukinn þungi færist í hernaðaraðgerðir Ísraelsmanna í borginni Rafah þar sem rúmlega milljón manns hefur leitað skjóls í tjaldbúðum. Þar eru meðal annars þau sem hafa dvalarleyfi á Íslandi.
„Það er eiginlega síðasta skjólið sem þessir einstaklingar hafa, það er að fara núna, þegar Ísraelsher mun ráðast á Rafah og það er mikil synd að íslenskir ráðherrar skuli ekki sinna þessu verkefni og fara þess í stað oft og tíðum fram í fjölmiðlum með misvísandi og hreint og beint rangar upplýsingar, það hjálpar ekki þessari umræðu.“
Albert hvetur stjórnvöld til að aðstoða fólkið.
„þegar maður greinir í sundur þessi misvísandi skilaboð og röngu upplýsingar, þá er það eina sem eftir stendur að það vantar þennan pólitíska vilja,“ segir Albert.
Boðað hefur verði til mótmælafundar á Austurvelli klukkan þrjú til að knýja á um að stjórnvöld hjálpi dvalarleyfishöfunum. Hátt í þrjú hundruð manns hafa boðað komu sína og á sjötta hundrað hafa lýst yfir áhuga á að mæta. Abdullah Alasser, fjórtán ára drengur frá Gasa mun halda ræðu en hann hefur ekki séð fjölskyldu sína í fimm ár en hún er ein þeirra sem hefur dvalarleyfi á Íslandi en er enn föst á Gasa.